Andlát: Pétur Arason

Pétur Arason, listaverkasafnari og fv. kaupmaður í Faco/Levi's-búðinni.
Pétur Arason, listaverkasafnari og fv. kaupmaður í Faco/Levi's-búðinni. Mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Pétur Kristinn Arason, listaverkasafnari og fv. kaupmaður í Faco/Levi’s-búðinni, lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 16. desember, 79 ára að aldri.

Pétur fæddist 17. ágúst 1944 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Ari Jónsson kaupmaður og Heiðbjört Pétursdóttir húsfreyja. Pétur ólst upp í Reykjavík fyrstu árin en 11 ára flutti hann í Kópavoginn ásamt fjölskyldu sinni. Hann fór á hverju sumri í sveit og var víða, m.a. í Skagafirði og Neskaupstað. Pétur gekk í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraskólans og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar

Pétur tók ásamt bróður sínum, Fjölni, við rekstri fataverslunar föður þeirra, Fatagerð Ara og co., sem framleiddi herraföt og stakar buxur. Verslunin hafði skammstöfunina Faco og ráku þeir einnig verslanirnar Fons í Keflavík, Fönn í Neskaupstað og Fídó á Akranesi. Faco sá um dreifingu á Levi’s-fatnaði og fékk síðar nafnið Levi’s-búðin.

Meðfram verslunarrekstri hóf Pétur söfnun á myndlist um 1960. Fór hann vikulega utan í viðskiptaferðir og skoðaði þá söfn í Amsterdam og London og fleiri borgum. Hann fór síðan að reka sýningarpláss sem nefndist Krókur og starfaði í fimm ár og svo opnaði hann árið 1992 sýningarrýmið Aðra hæð, eða Second Floor, ásamt Ingólfi Arnarssyni á heimili sínu og eiginkonu sinnar, Rögnu Róbertsdóttur, á Laugavegi 37.

Pétur og Ragna héldu áfram að safna samtímamyndlist og árið 2003 opnuðu þau SAFN samtímalistasafn á þremur hæðum sömu byggingar. Um leið seldi Pétur umboð sitt fyrir Levi's-fatnaðinn og lokaði versluninni. Þau ráku safnið í samstarfi við Reykjavíkurborg og var það opið almenningi til ársins 2008. Sýningar úr safneign Péturs hafa einnig verið haldnar á öðrum söfnum eins og í Nýlistasafninu, Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur. Árið 2014 opnuðu Pétur og Ragna tvö sýningarrými; á Bergstaðastræti 52 í Reykjavík og Levetzowstrasse 16 í Berlín, og voru sýningar haldnar á þessum stöðum í nokkur ár.

Pétur og Ragna gengu í hjónaband árið 1969. Þau eignuðist synina Pétur Ara, sem lést nokkurra mánaða 1967, og Kjartan Ara, f. 1972, myndlistarmann. ​Dóttir Kjartans og Maríu Rúnarsdóttur er Ísabella Róbjörg, f. 2006.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert