Bláa lónið lokað: Allir farnir þegar gaus

Helga Árnadóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu, rekst­urs og þjón­ustu Bláa lóns­ins, telur …
Helga Árnadóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu, rekst­urs og þjón­ustu Bláa lóns­ins, telur mannvirki Bláa lónsins ekki í hættu, bæði vegna staðsetningar sprungunnar og vegna tilkomu varnargarða milli sprungunnar og Svartsengis. Samsett mynd/Kristinn/Eggert

„Það voru allir farnir fyrir klukkan níu í gærkvöld, bæði gestir og starfsmenn. Síðustu gestir fóru ofan í klukkan sex og fóru til síns heima upp úr átta og starfsmenn svo að ganga frá en allir voru farnir úr húsi fyrir klukkan níu.“

Þetta segir Helga Árnadóttir, fram­kvæmda­stjóri sölu, rekst­urs og þjón­ustu Bláa lóns­ins, í samtali við mbl.is.

Lokað fram yfir jól

Helga segir að nú sé verið að fylgjast með framvindunni og meta stöðuna en búið sé að framlengja lokun Bláa lónsins til 28. desember.

Segir hún að viðbragðsaðilar meti stöðuna hverju sinni og það kom mönnum ekki á óvart að gosið hafi komið upp á þessum stað miðað við mat sérfræðinga.

„Við fylgjum alltaf fyrirmælum yfirvalda og menn eru alltaf að vinna með mismunandi sviðsmyndir. Við erum bara að meðtaka upplýsingarnar og vinna úr þeim.“

Mannvirki Bláa lónsins ekki í hættu

Helga telur mannvirki Bláa lónsins ekki í hættu, bæði vegna staðsetningar sprungunnar og vegna tilkomu varnargarða milli sprungunnar og Svartsengis.

Segir hún að sér í lagi séu góðar fréttir fyrir Grindavík að dragi nú úr virkninni í syðsta enda sprungunnar og að almennt hafi dregið úr virkni gossins.

Upplýsa starfsfólk og viðskiptavini hratt og vel

Segir Helga að ekki sé hægt að segja neitt til um framhaldið á þessari stundu en það verði í það minnsta lokað næstu daga. Stjórnendur séu að fylgjast með og rýna stöðuna eins og allir aðrir. Nú sé verið að upplýsa starfsfólk eins hratt og vel og hægt sé.

„Við leitumst við að upplýsa starfsfólk okkar og viðskiptavini hratt og vel um stöðuna hverju sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert