„Ekki óeðlilegt að það náist ekki full samstaða“

Sólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson vilja bæði semja um …
Sólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson vilja bæði semja um krónutöluhækkanir á grundvelli lífskjarasamningsins. Samsett mynd

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), segir að yfirgnæfandi meirihluti verkalýðshreyfingarinnar sé sammála um að semja í komandi kjaraviðræðum á grundvelli lífskjarasamningsins um krónutöluhækkanir.

Eins og mbl.is hefur greint frá þá flosnaði upp úr samningaviðræðum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands um sameiginlega kröfugerð fyrir komandi kjaraviðræður. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði svo í samtali við mbl.is að hún teldi að á næstu dögum yrði kynnt til leiks bandalag félaga sem ætla semja saman á grundvelli lífskjarasamningsins um krónutöluhækkanir.

Varðandi það hvort að SGS komi til með að tilheyra þessu óstofnaða bandalagi kveðst hann ekki vilja tala um þetta sem „bandalag“, en að SGS sé þó hluti af þeim félögum sem, eins og að minnsta kosti Efling, vilja semja um krónutöluhækkanir.

„Ég lít bara á þetta sem þau félög sem vilja fara þessa leið sem við erum búin að vera vinna að í fjórar vikur,“ segir hann og staðfestir að það séu krónutöluhækkanir á grundvelli lífskjarasamningsins.

Verkalýðshreyfingin mun ekki ein taka ábyrgð ef aðrir „spila sig stikkfrí“

Hann segir að með svona samningi væri þetta einskonar framlag verkalýðshreyfingarinnar til að vinna bug á vöxtum og verðbólgu.

„Gegn því skilyrði að allir taki þátt í þeirra vegferð, og er ég þar að tala um verslun og þjónustu, ég er að tala um sveitarfélög og ég er að tala um alla þá sem hafa varpað öllum sínum vanda út í verðlagið. Það er alveg ljóst að verkalýðshreyfingin ætlar ekki ein, enn og aftur, að axla ábyrgð á því að ná fram stöðugleika ef aðrir ætla að spila sig stikkfrí í slíkri vegferð,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að það sé sameiginlegur skilningur innan verkalýðshreyfingarinnar um mikilvægi þess að vinna bug á verðbólgunni og háu vaxtarstigi Seðlabankans.

Vongóður um að það takist að semja um krónutöluhækkanir

Hann segir þó ekki óeðlilegt að ekki hafi náðst algjör samstaða um aðferðarfræðina fyrir komandi kjaraviðræðum sökum stærðar launahreyfingarinnar og mismunandi hagsmuna.

„Í 130.000 manna launþegahreyfingu er svo sem ekki óeðlilegt að það náist ekki full samstaða enda hagsmunir hópanna kannski mismunandi. En ég vill segja að það er gríðarlega mikilvægt, og ég tel það vera ákall frá launafólki, neytendum og heimilum um að okkur takist þetta verkefni og ég tek þá ábyrgð gríðarlega alvarlega,“ segir hann og bætir því við að allir hafi tekið eftir miklum verð- og vaxtahækkunum.

„Því er lykilatriði að okkur takist að vinna bug á þessu og ég tel að það sé enn 90-95% aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands tilbúin að fara þessa leið sem við höfum verið að teikna upp og nú þarf bara að koma í ljós hvort að það takist eða takist ekki,“ segir Vilhjálmur en kveðst þó vongóður um að það takist að semja á grundvelli lífskjarasamningsins um krónutöluhækkanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka