Fimm gosop og hraunflæðið aðeins fjórðungur

Áfram dregur úr krafti eldgossins við Sundhnúkagíga og er hraunflæðið gróflega áætlað um fjórðungur af því sem það var í byrjun. Þriðjungur upphaflegu sprungunnar er virkur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Einnig eru kvikustrókarnir lægri en í upphafi gossins, eða um 30 metrar þar sem þeir ná hæst. Þessar tölur byggja á sjónrænu mati úr könnunarflugi. Annað mælingaflug er á áætlun kl. 13 í dag og þar mun skýrari mynd fást af þróun virkninnar.

Líkist gosum við Fagradalsfjall

„Þróun gossins svipar til eldgosa við Fagradalsfjall þar sem gossprungurnar eru byrjaðar að draga sig saman og mynda stök gosop. Á þessum tímapunkti eru um fimm gosop sem eru dreifð eftir upphaflegu sprungunni,” segir í tilkynningunni.

Ljósmynd/Almannavarnir

„Samkvæmt upplýsingum vísindafólks sem fór í seinna þyrluflug Landhelgisgæslunnar um kl. 4:00 í nótt hafði heildarlengd gossprungusvæðisins ekki breyst mikið frá því í upphafi. Lítil virkni var við suðurenda sprungunnar við Hagafell og mesta hraunrennslið leitar í austur í átt að Fagradalsfjalli. Tveir taumar ná í vestur, báðir norðan við Stóra-Skógfell,” segir þar einnig.

Möguleg gasmengun í Eyjum í dag

Fram kemur að í dag berist gosmökkur undan vestan- og norðvestanátt.

Gasmengunar gæti orðið vart í Vestmannaeyjum í dag, en ekki annars staðar í byggð. Samkvæmt veðurspá gæti gasmengunar jafnframt orðið vart á höfuðborgarsvæðinu seint í nótt eða í fyrramálið.

Verið er að vinna nýtt hættumatskort og verður það gefið út síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert