Forvitið fólk ekkert vandamál

Gossprungan er fjórir kílómetrar að lengd.
Gossprungan er fjórir kílómetrar að lengd. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan hefur ekki þurft að hafa afskipti af fólki sem vill reyna að sjá eldgosið á Reykjanesskaga sem hófst í gærkvöldi.

„Það hefur ekki verið vandamál hingað til. Við þurfum klárlega að hleypa einhverjum inn fyrir eins og við höfum gert,” segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, og nefnir sem dæmi starfsmenn sem þurfa að sinna nauðsynlegu viðhaldi og eftirliti í orkuverinu í Svartsengi.

Grindavíkurvegur er annars lokaður fyrir aðra en viðbragðsaðila. Reykjanesbraut er aftur á móti opin í báðar áttir.

Úlfar Lúðvíksson.
Úlfar Lúðvíksson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vinna við varnargarð stendur yfir

Vinna stendur yfir vegna varnargarðsins sem hefur að undanförnu verið reistur í kringum orkuverið og er verið að þrengja skarðið sem liggur að Grindavíkurvegi, að sögn Úlfars.

Hann segir jákvætt að dregið hafi úr virkni eldgossins og að fylgst verði náið með framhaldinu í dag og næstu daga.

Vinna við varnargarðana fyrr í mánuðinum.
Vinna við varnargarðana fyrr í mánuðinum. Eggert Jóhannesson

Lélegt skyggni 

Spurður hvort hann vilji koma einhverju sérstöku á framfæri til almennings nefnir hann að veðrið sé frekar leiðinlegt.

„Það er kannski ekki mikið að sjá í augnablikinu, þannig að þessi stórkostlega sjón sem blasti við mönnum við Reykjanesbrautina í gær lítur öðruvísi út í dag. Skyggnið er frekar lélegt.”

Úlfar kveðst vera nokkuð ánægður með stöðuna hjá viðbragðsaðilum en um 50 manns eru á vaktinni, þ.e. úr röðum lögreglunnar, björgunarsveita og slökkviliðsins. Öryggismiðstöðin er jafnframt með varðpósta á Nesvegi, Suðurstrandavegi og Grindavíkurvegi ásamt björgunarsveitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka