Gjörólíkt síðustu gosum

Gosið séð frá Reykjanesbrautinni.
Gosið séð frá Reykjanesbrautinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eldgosið við Sundhnúkagígaröðina sem braust út á ellefta tímanum í gærkvöldi er gjörólíkt síðustu gosum á Reykjanesskaga, að sögn Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings.

Hann segir kraftinn í þessu eldgosi mun meiri en í fyrri gosum og spáir hann því að gosinu verði lokið eftir nokkra daga. Hann efast um að hraunrennsli muni ná alla leið til Grindavíkur.

„Krafturinn er enn þokkalegur,“ segir Ármann í samtali við mbl.is þar sem hann stendur í 400 metra fjarlægð frá gossprungunni að virða fyrir sér tignarlega kvikustróka sem sumir ná um 70 metra hæð.

Ármann Höskuldsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Ármann Höskuldsson, prófessor við Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þrjú svæði farin að byggja sig meira upp

Sprungan er um fjórir kílómetrar að lengd og „logar í henni meira og minna allri“, að sögn Ármanns.

„Það er eitthvað aðeins farið að draga úr og hún er farin að mynda þrjú svona svæði sem eru farin að byggja sig meira upp.“

Hann segir hraunið aðallega flæða í austur í áttina að Fagradalsfjalli, „nema þarna allra nyrst, þar fer það í norðvestur“.

Hin eldgosin eins og sýnishorn

Töluvert hefur dregið úr krafti eldgossins frá því að það braust út klukkan 22.17. 

„Kvikustrókarnir eru miklu minni en í byrjun, þeir eru kannski 60 til 70 metrar, þegar það er mestur kraftur í þeim.“

Býstu við langvinnu eldgosi?

„Nei, þetta verður búið eftir svona viku, tíu daga. Þetta er svo kröftugt gos, þá er það fljótt að klára sig af.“

Er þetta eðlisólíkt fyrri eldgosum?

„Já, þetta er gjörólíkt. Þetta er alvöru. Hitt var eins og eitthvað sýnishorn.“

Gliðnun sem þarf að gerast reglulega

Er þá hægt að tala um að nýr kafli sé hafinn á Reykjanesskaga?

„Já, nú er það að fara á réttan stað. Núna er það að færa sig inn í Eldvörpin. Þar er miðjan á flekamótunum. [...] Stóra myndin er náttúrulega að flekarnir tveir eru að fara í sundur,“ segir Ármann.

„Þetta er bara eðlilegt af því að við erum með þessa tvo risastóru fleka, Norður-Ameríkuflekann og Evrasíuflekann og mótin á þeim liggja um mitt Atlantshafið, alveg frá suðri til norðurs og Ísland er hluti af því. Nú er gliðnun í gangi hér á Reykjanesinu sem þarf að gerast reglulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert