Helstu áhyggjurnar af Grindavíkurvegi

Unnið er að gerð hraunflæðilíkans.
Unnið er að gerð hraunflæðilíkans. Ljósmynd/Almannavarnir

Eins og staðan er núna er Grindavíkurvegur líklegastur af innviðum á Reykjanesskaganum til þess að verða nýju hrauni að bráð.

Frá þessu greinir Hjör­dís Guðmunds­dótt­ir, sam­skipta­stjóri al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, í samtali við mbl.is í sam­hæf­ing­ar­stöð al­manna­varna í Skóg­ar­hlíð.

Vísindafundur almannavarna og Veðurstofu Íslands var enn í gangi er blaðamaður náði tali af Hjördísi, en fundurinn hófst klukkan 9.30 í morgun.

Á dagskrá fundarins var meðal annars hraunflæði og gerð hraunflæðilíkana af eldgosinu.

Hnit voru tekin í nótt til þess að kanna hraunrennslið. Unnið er að því að færa þær upplýsingar yfir í hraunflæðilíkan til þess að geta kortlagt hvert hraunið renni og hvaða innviðir séu helst í hættu, að sögn Hjördísar.

Líkanið gefi skýrari mynd

Eins og staðan er núna er helsta hættan á því að Grindavíkurvegur verði hrauninu að bráð.

„Það lítur út fyrir að hraunið sé að fara í þá átt, en það er ekkert að gerast á næstu klukkutímum. Það er innviðurinn sem við höfum áhyggjur af núna. Við sjáum að hraunið er ekki að renna í áttina að Grindavík. Suðurendinn á eldgosinu er í þessum töluðu orðum ekki að færa sig í áttina að Grindavík, sem eru bestu fréttirnar,“ segir Hjördís.

„Það sem hraunflæðilíkönin gera er að þau taka virknina og hæðir og lægðir í landslaginu,” segir Hjördís.

Þannig ætti líkanið að geta sagt nokkurn veginn til um það hvenær hraunið nái að ákveðnum innviðum, svo sem Grindavíkurvegi.

Gera allt til þess að koma í veg fyrir lokanir

Reykjanesbrautinni var lokað um stund í nótt en nokkuð myndarleg bílalest myndaðist þegar ökumenn stöðvuðu úti í vegkanti til þess að taka myndir af gosinu nýja. 

Al­manna­varn­ir hvetja þá sem ekki þurfa nauðsyn­lega að aka braut­ina að sleppa því.

Spurð um það hvort komi til greina að loka veginum verði ökumenn til vandræða segir Hjördís að lögreglustjórinn reyni allt til þess að ekki komi til lokanna.

„[Reykjanesbrautin] er ákveðin lífæð út í Keflavíkurflugvöll og hjá fólki til og frá vinnu. Það er ekki gott fyrir neinn ef að hún lokar. Þess vegna erum við að biðja fólk um að vera ekki að fara að óþörfu og leyfa brautinni að vera í sinni eðlilegri umferð,“ segir Hjördís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert