Hraunið náð um 40% leiðarinnar að Grindavíkurvegi

Magnús Tumi segir litlar líkur vera á því að kvikugangurinn …
Magnús Tumi segir litlar líkur vera á því að kvikugangurinn lengist til suðurs. Samsett mynd

Dregið hefur úr krafti eldgossins á Reykjanesskaga og því er ólíklegra að hraun muni flæða yfir Grindavíkurveg, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. 

„Það eru nokkrir kílómetrar til Grindavíkurvegar. Þetta [hraun] var komið svona 40% af þeirri leið í nótt en þá var mjög lítil hreyfing á þeim enda,“ segir Magnús við mbl.is. Hann bendir aftur á móti á að það sé enn mögulegt að hraunflæðið sæki í sig veðrið.

„En það er ekkert að stefna hraðbyri í eitthvað slíkt.“

„Mjög lítil hreyfing“

Áfram dreg­ur úr krafti eld­goss­ins sem hófst við Sundhnúkagígaröðina, norðan við Grindavík, á ellefta tímanum í gærkvöldi. Hraun­flæðið er gróf­lega áætlað um fjórðung­ur af því sem það var í byrj­un. Þriðjung­ur upp­haf­legu sprung­unn­ar er virk­ur.

„Gígarnir eru norðan vatnaskila, þannig hraun rennur ekki í átt til Grindavíkur,“ segir Magnús.

Eldgosið hófst upp úr klukkan 22 í gærkvöldi.
Eldgosið hófst upp úr klukkan 22 í gærkvöldi. Ljósmynd/Almannavarnir

Ólíklegt að kvikugangurinn lengist til suðurs

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sagði við mbl.is fyrr í dag að meta þyrfti hvort kviku­gang­ur hins nýja eld­goss færðist sunnar, nær Grinda­vík, áður en íbú­um bæj­ar­ins verði hleypt heim til sín. 

„Það er nú ólíklegt að hann [kvikugangurinn] lengist til suðurs,“ segir Magnús og útskýrir að kvika í ganginum fari alltaf lengra en ystu gígar gossins.

„Framan við endann á kvikuganginum er svæði sem kvika fór inn í en hún kemur ekki upp. Það virðist vera málsregla.“

Kort/mbl.is

Engin alvarleg gasmengun

Magnús segir að sérfræðingar hafi enn ekki orðnir varir við alvarlega gasmengun vegna gossins.

„Þetta var ansi mikill mökkur sem var þarna í gærkvöldi og síðan dró heldur úr honum. Sennilega er mikið af þessu vatnsgufa. Það er ekki eins mikill brennisteinn og var í hinum gosunum, viðrist vera, sennilega vegna þess að kvikan er búin að dvelja í einhvern tíma í jarðskorpunni og þá losnar eitthvað af því gasi,“ segir Magnús Tumi, spurður út í gasmengun frá gosinu.

„Enn sem komið er höfum við ekki orðið var við neina alvarlega mengun einhvers staðar,“ bætir hann við.

Magnús Tumi Guðmunds­son, prófessor í jarðeðlisfræði,
Magnús Tumi Guðmunds­son, prófessor í jarðeðlisfræði, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuttur fyrirvari kom ekki á óvart

Magnús segir að fyrirvari gossins hafi ekki komið sér á óvart. „Þetta voru ekki sterk merki, sem er í sjálfu sér ekkert skrítið, en það er gallinn við þetta. Þetta er hálfopið, þannig það eru mjög lítil átök við að opna leiðina. Þessi aðdragandi bar öll merki þess.“

„Þetta var kannski kröftugra en búist var við. En svo er þetta auðvitað að detta niður úr þessu,“ segir hann og bendir á að gosopið hefur einangrast mikið á síðustu tímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert