„Núna er ekki bráð hætta á því að innviðum sé ógnað, nema kannski Grindavíkurvegi,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í samtali við mbl.is um gosið sem hófst við Sundhnúkagígaröðina, norðan við Grindavík, á ellefta tímanum í gærkvöldi.
Þegar mbl.is sló á þráðinn til Fannars hafði hann nýlega fundað með ráðherranefnd og almannavarnateymum. Fannar segir að áhyggjur sínar og Grindvíkinga lúti að tvennu. Annars vegar að hraun geti runnið suður að Grindavík og hins vegar vestur að orkumannvirkjum í Svartsengi.
Hann bendir aftur á móti á að hægt sé að bregðast við hraunrennsli í átt að Grindavík „með ýtum og öflugum tækjum sem eru á staðnum“. Því til viðbótar segir hann að ekkert bendi til þess að hraun renni í átt að Svartsengi eins og staðan er núna.
En þrátt fyrir að mögulega takist að koma í veg fyrir að hraun flæði að Svartsengi gæti hitaveitulögn frá Svartsengi að Reykjanesbæ orðið næst á vegi hraunsins, en það myndi stöðva heitavatnsrennsli til bæjarins.
Vinna er hafin við að ýta efni í skarðið þar sem Grindavíkurvegur fer í gegnum varnargarðinn að norðan. Auk þess hefur heimild verið veitt til þess að rjúfa Grindavíkurveg sé þess þörf.
„Það hefur verið hugað að því að verja hana [hitaveitulögnina]. Það kom fram á fundi áðan að það yrði haldið áfram að huga að varnarviðbrögðum varðandi þessa lögn. Það er í skoðun,“ segir Fannar.