Liggur á að leysa húsnæðisvandann

„Nú skiptir máli að við Grindvíkingar stöndum áfram saman,“ segir …
„Nú skiptir máli að við Grindvíkingar stöndum áfram saman,“ segir Fannar í ávarpi til Grindvíkinga. Samsett mynd

Nú liggur á að leysa húsnæðisvanda þeirra grindvísku fjölskyldna sem enn eru ekki með tryggt húsnæði, að sögn Fannars Jónassonar, bæjarstjóra Grindavíkur.

„Því miður var sú von sem kveikt hafði verið í brjóstum margra um möguleika á að jólin yrðu haldin heima í Grindavík alveg úti þegar byrjaði að gjósa í gær,“ skrifar Fannar í yfirlýsingu sem hann lét birta á vef Grindavíkurbæjar. Gos hófst við Sundhnúkagígaröðina, norðan við Grindavík, á ellefta tímanum í gærkvöldi.

Hann nefnir að erfiðar tilfinningar brjótist efalaust um í mörgum Grindvíkingum og minnir þá á að hægt sé að leita sálræns stuðnings í þjónustumiðstöð í Tollhúsinu. Hann bendir einnig á að Rauði krossinn hafi bætt í þá þjónustu vegna atburða næturinnar. 

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skiptir máli að Grindvíkingar standi saman

„Það er nokkuð ljóst að nú liggur á að leysa húsnæðisvanda þeirra fjölskyldna sem enn eru ekki með tryggt húsnæði næstu vikur og mánuði,“ segir í yfirlýsingu bæjarstjórans. Hann segir að ýmis húsnæðisúrræði séu þegar komin í ferli en það sé afar mikilvægt að halda áfram af fullum krafti.  

„Nú skiptir máli að við Grindvíkingar stöndum áfram saman og hugum vel að hvert öðru, pössum upp á líðan okkar og fólksins í kringum okkur,“ skrifar bæjarstjórinn að lokum.

Fannar ræddi við mbl.is í morgun þar sem hann sagði að inviðum stafi ekki mikil ógn af eldgosinu í augnablikinu.

Eldgos við Grindavík dagur 2 - Þyrluflug kl 13:00 yfir …
Eldgos við Grindavík dagur 2 - Þyrluflug kl 13:00 yfir gosstöðvarnar við Sundhnúkagíga. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka