Líkhúsið gæti lokast fyrirvaralaust

Líkhús Kirkjugarðanna í Reykjavík er komið að þolmörkum og gæti …
Líkhús Kirkjugarðanna í Reykjavík er komið að þolmörkum og gæti lokað fyrirvaralaust. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Líkhús Kirkjugarðanna í Reykjavík gæti lokast fyrirvaralaust ef bilun kemur upp. Kælikerfi líkhússins er komið til ára sinna og ekki er hægt að gera við það meira.

Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarðanna í Reykjavík, segir að stefnt gæti í það að líkhúsið þyrfti að vísa líkum frá því umfangið sé orðið of mikið miðað við stærð og ástand líkhússins. 

Kirkjugarðarnir í Reykjavík sendu hagsmunaaðilum sem nota líkhúsið bréf þess efnis í dag. 

„Líkhúsið löngu sprungið og orðið allt of lítið. Við gætum þurft að fara vísa frá líkum. Það er orðið mjög gamalt og við munum ekki fjárfesta í nýju líkhúsi nema reksturinn verði tryggður. Við munum loka á næstu mánuðum ef ekkert verður að gert,“ segir Ingvar í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is hefur fjallað um er gat lögunum er kemur að starfsemi líkhúsa. Hinu opinbera ber að gefa út dánarvottorð og að greftrun fari fram. Hins vegar kveða lögin ekki á um hverjum beri að reka líkhús og Umboðsmaður Alþingis hefur komist að því að líkhús megi ekki rukka gjald fyrir það. 

Tilbúin að reka líkhúsið á núllinu

„Samfélagið og löggjafinn þarf bara að ákveða hvað hann vill. Við erum tilbúin til að reka þetta á núllinu,“ segir Ingvar spurður út í það hver farsælasta lausnin væri, heimild til að rukka gjald eða fjárveiting frá hinu opinbera til að tryggja reksturinn. 

mbl.is hefur í vetur fjallað um rekstrarvanda líkhússins á Akureyri, en það var auglýst til sölu eða leigu í nóvember. Enginn hefur sýnt rekstrinum áhuga og er útlit fyrir að líkhúsið þar loki á næstunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert