Loftgæði versnað mest á Selfossi

Einar Halldórsson, teymisstjóri á sviði umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun, segir aðstæður aðeins hagstæðari en óttast var í fyrstu.

Segir hann ekki eins mikið af gasi í kvikunni frá eldgosinu við Sundhnúkagíga eins og fyrst var talið. Samkvæmt upplýsingum frá jarðfræðingum sé mikil afgösun á kvikunni og þannig sé gasmengun ekki mikil. Loftgæði hafi versnað mest á Selfossi.

Undir heilsuverndarmörkum

„Eins og þetta byrjaði í gærkvöldi og maður var að sjá þessa háu stróka þá var maður frekar að búast við því að það væri mikil gasmengun sem væri að fylgja þessu. Við höfum séð það á mælunum að það er ekki mikið að mælast. Það var aðeins á Selfossi í nótt en það var undir heilsuverndarmörkum,“ segir Einar.

Á svæðinu hefur verið ríkjandi vestanátt svo mengun af gosinu er að fara mest til austurs. Á Selfossi mældust mest tæplega 87 míkrógrömm brennisteinsdíoxíðs á rúmmetrann laust fyrir klukkan þrjú í nótt. Engir loftgæðamælar eru í um 70 kílómetra loftlínu milli Grindavíkur og Selfoss.

Á Selfossi mældust mest tæplega 87 míkrógrömm brennisteinsdíoxíðs á rúmmetrann …
Á Selfossi mældust mest tæplega 87 míkrógrömm brennisteinsdíoxíðs á rúmmetrann laust fyrir klukkan þrjú í nótt. Skjáskot/loftgaedi.is

„Það væri fróðlegt að hafa mæli í Þorlákshöfn og það er í vinnslu skilst mér samkvæmt nýjustu upplýsingum,“ segir Einar.

Hann segir erfitt að áætla hvað loftgæðamælir gæti hugsanlega sýnt nær upptökum eldgossins væri honum fyrir að fara.

„Alveg upp við sprunguna gæti maður trúað að þetta færi í 100, 200 eða 300 en það er bara svo erfitt að segja til um það á meðan við höfum ekki frekari mælingar um það.“

Segir Einar Veðurstofu Íslands sjá um mælingar við gosstöðvarnar og hugsanlega berist frekari upplýsingar þaðan seinna í dag.

30 sinnum verra í Meradölum á síðasta ári

Segir hann að eldgosið í Meradölum á síðasta ári hafi verið sínu verst hvað loftgæði varðar og að þá hafi mest mælst um 2.700 míkrógrömm á rúmmetrann í Vogum í Vatnsleysuströnd.

Loftgæði mælast mjög góð að 20 míkrógrömmum brennisteinsdíoxíðs á rúmmetrann, góð að 350 míkrógrömmum, sæmileg að 600 míkrógrömmum og óholl fyrir viðkvæma frá 600 míkrógrömmum að 2.600 míkrógrömmum á rúmmetrann.

Mælist yfir 2.600 míkrógrömm brennisteinsdíoxíðs á rúmmetrann eru loftgæði talin óholl öllum. Þannig má ljóst vera að loftgæði teljist almennt góð eða mjög góð eins og sakir standa vegna gossins við Sundhnúkagíga.

Einar segir að þeir sem viðkvæmir séu fyrir gætu fundið fyrir óþægindum um leið og meira en 350 míkrógrömm brennisteinsdíoxíðs mælist á rúmmetrann og eins geti heilbrigt fólk fundið fyrir ertingu við mikla áreynslu í lengri tíma við slíkar aðstæður.

Hvetur hann fólk til að fylgjast vel með á loftgaedi.is og fara eftir leiðbeiningum Umhverfisstofnunar og almannavarna.

Skjáskot/loftgaedi.is

Glöggir lesendur taka eflaust eftir því að mælar í Garði og á Keflavíkurflugvelli sýna aðeins góð loftgæði en ekki mjög góð líkt og aðrir mælar á svæðinu. Einar segir það stafa af því að mælarnir á þeim tveimur stöðum séu hálfgerðir vinnuverndarmælar sem gefi góða vísbendingu um mjög háan styrk en þeir séu ekki jafn nákvæmir og hinir.

„Heilsuverndarmörkin fyrir sólarhringinn eru 350 míkrógrömm. Ef þetta fer upp í 1.000 míkrógrömm á þessum mælum myndum við segja að loftgæðin væru orðin mjög óholl. Það er meira að marka mælanna sem eru í kringum þessa mæla.

Skekkjan á þessum mælingum getur verið allt að +/- 200 míkrógrömm eða svo. Það er hálfgerður galli að við séum með þá hálfgræna inni en við viljum hafa þá inni til upplýsinga fyrir fólk. Þetta getur breyst svo hratt og það getur orðið mikil mengun á einum mæli en ekki öðrum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka