Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir margar góðar fréttir af gosinu.
„Góðu fréttirnar eru þær að hraun er ekki að renna til suðurs í átt að byggð. Eins eru það góðar fréttir að dregið hefur töluvert úr gosinu. Sömuleiðis eru það góðar fréttir að kvikan virðist nokkuð afgösuð og við greinum því ekki sterk gasmerki.“
Kristín segir að veðrið sé aðeins að stríða vísindamönnum. Hríð og ofankoma hefur orðið til þess að ekkert þyrluflug vísindamanna hefur farið yfir gosið síðan klukkan fimm í nótt.
Brugðist sé við því með því að flytja sjálfvirkan dróna úr Grindavík norðar til að mynda gossprunguna. Eins sé Landhelgisgæslan með dróna á sínum vegum sem sé að fara að mynda.
„Við óskum líka reglulega eftir gervitunglamyndum. Snjórinn getur skemmt aðeins fyrir þar, varðandi þessar inSAR-myndir, sem bera saman hreyfingar á yfirborði jarðar. Þegar komin er snjóhula yfir svæðið þá er bara verið að bera saman hvítan flöt við hvítan, og því litlar niðurstöður að fá. Við fáum þó það út úr myndunum hvernig hraunbreiðan er að stækka. Þá sjáum hvert hraunið er að renna og fáum því miklu nákvæmari flatarmálsáætlun út frá því,“ segir Kristín.
Gervitunglamyndir geta að sögn Kristínar einungis veitt tvívíðar upplýsingar en treysta þarf á flug og dróna til að afla þrívíðra upplýsinga um gosið. Þá sé hægt að átta sig betur á umfanginu og fá upplýsingar um rúmmál gossins og hvernig hraunflæðið breytist með tímanum.
Þótt dregið hafi töluvert úr gosinu í dag vill Kristín minna á að það er enn mjög stórt.
„Þótt það sé um 50 rúmmetrar á sekúndu í dag, þá er það samt fimm sinnum meira en meðalrennslið var í hinum gosunum á Reykjanesskaga. Þetta er því sannarlega stærra gos.“