„Öðruvísi skepna en við erum búin að horfa á“

„En ég hefði verið til í að vera kominn með …
„En ég hefði verið til í að vera kominn með garð fyrir ofan Grindavík,“ segir Þorvaldur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er öðruvísi skepna en við erum búin að horfa á í Fagradalsfjalli,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur, um eldgosið við Sundhnúkagígaröðina sem hófst á ellefta tímanum í kvöld.

Eldgosið er það stærsta sem komið hefur upp á Reykjanesskaganum frá því að hann vaknaði úr dvala árið 2019.

Hann segir tvær sviðsmyndir hafa verið uppi áður en gosið hófst.

Annars vegar að það væri að draga úr innflæði kviku í kvikuhólfið og atburðarásin væri að deyja út. Og hins vegar að innflæði kviku væri „áfram á fullu“, jarðskorpan væri komin að þolmörkum og kvika gæti brotið sér leið upp á yfirborð með stuttum fyrirvara.

Mun öflugra en fyrri eldgos

Um 100 til 200 rúmmetrar af kviku koma upp á hverri sekúndu úr gossprungunni. Að sögn Þorvaldar er krafturinn um tíu til tuttugu sinnum meiri en við upphaf eldgossins í Fagradalsfjalli árið 2021. 

Þá segir Þorvaldur útstreymi brennisteinsdíoxíðs tífalt meiri á tímaeiningu en í síðustu þremur eldgosum, eða á bilinu 30 til 60 þúsund tonn á dag.

Brennisteinsdíoxíð hvarfast við vatnsgufu í andrúmsloftinu og myndar brennisteinssýru sem er mun eitraðri en brennisteinsdíoxíð. 

„Þetta breytist mjög hratt yfir í brennisteinssýru. Helmingunartími er um það bil einn dagur. Móða er fljót að myndast sem gæti valdið mengun á byggðum bólum,“ segir Þorvaldur en bætir þó við að góðu fréttirnar séu þær að vindáttin núna sé mjög hagstæð.

„Þessu blæs meira og minna út á haf.“

Hraun flæðir í norður og austur

Gossprungan við Sundhnúkagígaröðina er um fjórir kílómetrar að lengd og virðist mesta virknin nú vera um miðbik hennar. Er norðurendi sprungunnar rétt austan við Stóra-Skógfell og syðri endinn rétt austan við Sundhnúk.

Hraun flæðir úr gossprungunni bæði í norður- og austurátt. Að sögn Þorvaldar getur hraunið þó ekki runnið mjög langt í austur þar sem land tekur að hækka skammt frá. Er þá töluvert líklegt að hraunrennslið sveigi til suður, eða í átt að Grindavík.

Þá séu jafnframt mikilvægir innviðir norðan við gossprunguna sem gætu verið í hættu haldi eldgosið lengi áfram.

Temmilega bjartsýnn á að garðarnir haldi

Hann kveðst temmilega bjartsýnn á að varnargarðarnir haldi, en bendir þó á að þeir eigi ekki að stoppa hraunflæði heldur beina því í aðra átt.

„En ég hefði verið til í að vera kominn með garð fyrir ofan Grindavík,“ bætir hann við.

Eldgosið hófst upp úr klukkan 22 í kvöld.
Eldgosið hófst upp úr klukkan 22 í kvöld. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert