Þorlákur Einarsson
Eldgosið sem hófst á Reykjanesskaga er mjög öflugt í samanburði við önnur gos. Veðurstofan áætlar að hraunflæði hafi verið um 100 til 200 rúmmetrar á sekúndu í upphafi goss.
Ber það því höfuð og herðar yfir undanfarin gos á Reykjanesskaga, líkt og sést á skýringarmyndinni að ofan. Næst í röðinni kemur gosið í Merardölum, en þá komu 32 rúmmetrar á sekúndu úr jörðu í upphafi.
Til frekari samanburðar má nefna eitt mesta hraungos síðari tíma, í Holuhrauni á árunum 2014 til 2015. Þá var hraunflæði í upphafi mest 350 rúmmetrar á sekúndu.
Ljóst er því að það voru miklir kraftar sem leystust úr læðingi í gærkvöldi. Nokkuð hratt hefur dregið úr gosinu þótt það hafi hafist af miklum krafti.
Veðurstofan áætlar nú að hraunflæðið sé aðeins fjórðungur af því sem upphaflega var, eða 25-50 rúmmetrar á sekúndu. Kvikustrókarnir eru einnig lægri, eða 30 metrar þar sem þeir ná hæst. Nú eru um fimm gosop, sem eru dreifð eftir upphaflegu sprungunni.