Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt tvo unga menn fyrir nokkur brot, ýmist framin saman eða í sitthvoru lagi, þar með talið rán.
Annar mannanna, Alexander Brynjar Róbertsson, var dæmdur í 20 mánaða fangelsi. Hann er 21 árs gamall. Hinn maðurinn er 19 ára gamall og hlaut 7 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Alexander var enn fremur dæmdur til að greiða 1,8 milljónir í sakarkostnað.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru á hendur mönnunum 10. október og er hún í nokkrum liðum. Alvarlegasta atvikið átti sér stað 5. ágúst þegar mennirnir ógnuðu fólki með hníf á göngustíg í Fossvogi og tóku af þeim farsíma og snjallúr.
Þá voru þeir ákærðir fyrir tilraun til gripdeildar með því að hafa sama dag skipað konu að afhenda þeim peninga við hraðbanka í Kópavogi. Konan náði aftur á móti að hlaupa í burtu og reiðuféð fór aftur inn í hraðbankann.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll í gær, að mennirnir hafi játað skýlaust sök og að játningin sé studd sakargögnum.
Alexander hefur áður hlotið dóma áður en hann varð 18 ára gamall, m.a. fyrir nytjastuld, akstur án gildra ökuréttinda, þjófnaðar, eignaspjalla og akstursundir áhrifum áfengis og vímuefna. Árið 2021 hlaut hann dóm fyrir brot gegn valdstjórninni og ári síðar dóm fyrir m.a. líkamsárás og tilraun til ráns.
Fram kemur í dómnum að Alexander hafi með brotum sínum nú rofið skilorð dóms frá 2022. Sama eigi við um yngri manninn, sem einnig hlaut dóm árið 2022 fyrir brot gegn valdstjórninni.
Héraðsdómur segir að ungur aldur mannanna og skýlaus játning þeirra sé þeim báðum til málsbóta. Hann segir aftur á móti að til refsiþyngingar, hvað báða varðar, sé bæði ásetningur og grófleiki sem fólst í ráninu í Fossvogi.
Héraðsdómur segir að vegna sakaferils Alexanders og eðli þeirra brota sem hann er sakfelldur fyrir þá sé ekki hægt að skilorðsbinda dóminn nú. Öðru máli gegnir með yngri manninn sem hlaut sjö mánaða skilorðsbundinn dóm, sem fyrr segir.