Réttað yfir Eddu í Skien

Edda Björk Arnardóttir, hægra megin, ásamt verjanda sínum, Sol Elden, …
Edda Björk Arnardóttir, hægra megin, ásamt verjanda sínum, Sol Elden, í Héraðsdómi Telemark í Skien í dag. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Klukkan níu í morgun að norskum tíma hófst aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Eddu Björk Arnardóttur fyrir Héraðsdómi Telemark í Skien í Austur-Noregi en Edda sætir þar ákæru fyrir að ræna þremur sonum þeirra barnsföður síns en íslensk yfirvöld framseldu Eddu til Noregs um mánaðamótin síðustu.

Sögu málsins má rekja aftur til ársins 2017 þegar sambýlismaður og barnsfaðir Eddu flutti út af heimili þeirra eftir að hún hafði hafið samband við heildsalann Karl Udo Luckas. Bjuggu börn þeirra fimm, drengirnir þrír og tvær stúlkur, til skiptis hjá Eddu og föður sínum.

Sumarið 2017 flutti Edda til Íslands og hefur verið búsett þar síðan. Börnin urðu eftir í Noregi og var ekkert samkomulag gert um umgengnisrétt foreldranna en Edda höfðaði skömmu síðar mál fyrir héraðsdómi í Telemark og krafðist fullrar forsjár. Dómur í því máli dæmdi báðum foreldrum forsjá, öll börnin skyldu þó búa hjá föðurnum en dvelja hjá Eddu í fríum.

Gert að skila börnunum

Áfrýjaði Edda dómnum og lá niðurstaða áfrýjunarmálsins fyrir haustið 2018. Hún skyldi aðeins fá börnin í fimm vikna sumarfrí og auk þess annað hvert haustfrí, jóla- og áramótafrí, vetrarfrí og páskafrí.

Skiluðu börnin sér ekki úr vetrarfríi upp úr því sem þessi dómur féll og varð af dómsmál sem gekk alla leið til Hæstaréttar á Íslandi og var Eddu gert að skila börnunum til Noregs. Fóru leikar svo að íslensk yfirvöld gerðu aðför við framkvæmd afhendingarinnar sumarið 2019. Leiddi málið til ákæru á hendur Eddu sem hlaut sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi haustið 2020.

Héraðsdómur Telemark í Skien þar sem mál Eddu er flutt …
Héraðsdómur Telemark í Skien þar sem mál Eddu er flutt í dag og á morgun. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Nam drengina á brott

Í Noregi féll svo dómur árið 2020 þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að föður einum var falin forsjá drengjanna og rökstuddi meðal annars með langvarandi deilum foreldranna auk þess sem hegðun móður hefði í för með sér hættu á að faðirinn gæti ekki sinnt skyldum sínum sem forsjáraðili svo vel færi. Taldi rétturinn að stúlkunum tveimur væri fyrir bestu að forræði Eddu og barnsföður hennar væri sameiginlegt og voru foreldrarnir enn fremur sammála um það.

Fóru leikar svo að Edda nam drengina á brott frá Noregi í mars í fyrra og flutti þá til Íslands með einkaþotu svo sem fljótlega komst í hámæli í norskum og íslenskum fjölmiðlum og er mál það sem hófst fyrir Héraðsdómi Telemark í morgun sprottið af þeirri aðgerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert