Landsvirkjun hefur tilkynnt stórnotendum á suðvesturhluta landsins, Elkem, Norðuráli og Rio Tinto og fjarvarmaveitum að skerða þurfi orku til starfsemi þeirra, en þessir notendur hafa ekki sætt skerðingum fyrr á þessum vetri.
Skerðingarnar, sem eru háðar vatnsbúskap á tímabilinu, hefjast 19. janúar 2024 og geta staðið allt til 30 apríl.
Í tilkynningu sem Landsvirkjun sendi frá sér í dag er greint frá því að staða orkustarfsemi á suðvesturhluta landsins hafi farið versnandi á milli mánaða.
Þá hafi desember verið verulega þurr mánuður þar sem lónstaða Þórisvatns hafi verið með versta móti. Þar segir einnig að áætlanir sýni að yfirborð Þórisvatns geti komið til með að fara niður fyrir 562 m yfir sjávarmáli í vor sem aðeins hafi gerst einu sinni, vorið 2014.
„Þetta dræma innrennsli leiðir til þess að skerða þarf afhendingu orku um allt að 200 GWst til viðbótar við það sem áður hefur verið tilkynnt,“ segir í tilkynningu Landsvirkjunar.
„Gert er ráð fyrir fullri nýtingu skerðingarheimilda í þeim samningum sem um ræðir, en skerðingarheimildin er mismunandi eftir samningum. Almennt nemur skerðingin um 10% á mánuði, en það er þó misjafnt eftir samningum, m.a. eftir því hversu hratt fyrirtækin geta dregið úr orkunotkun sinni.“
Í tilkynningu Landsvirkjunar er tekið fram að stórnotendur fyrir norðan, svokallað snið IIIb, verði ekki fyrir sömu skerðingum og þeim sem fyrir sunnan eru. Með því sé átt við þann flöskuháls í kerfinu sem hafi mest áhrif á orku-og aflnýtingu virkjana sem skilgreint sé af Blöndulínu 1 í vestur frá Blöndustöð og af Fljótsdalslínu 2 í austur af Fljótsdalsstöð.
Loks segir í tilkynningunni að til marks um hversu umfangsmikil áhrif takmarkanir á flutningskerfi hafi megi nefna að um 1600 GWst af orku hafi runnið ónýttar til sjávar frá Fljótsdalshéraði síðastliðið sumar.
Hefði aukin flutningsgeta um sniðið því líklega komið í veg fyrir fyrirhugaðar orkuskerðingarnar og um leið tryggt að ekki gengi jafn hratt á Þórisvatn og raun bar vitni.