Sprungan færist nær Grindavík

Landhelgisgæslan flaug yfir svæðið nú í kvöld.
Landhelgisgæslan flaug yfir svæðið nú í kvöld. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Sprungan sem opnaðist við Sundhnúkagígaröðina er nú um tvo kílómetra frá Grindavíkurbæ og stækkar hratt. Ekki er útilokað að hún haldi áfram að stækka til suðvesturs en vísindamenn vita ekki nákvæmlega hver framvindan verður næstu klukkustundirnar.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Hún [sprungan] er allavega á fleygiferð enn þá. Það er ekkert hægt að segja til um það núna hvenær hún hættir að lengjast,“ segir Benedikt.

Hraun rennur á þessari stundu til norðurs og austur, en er ekki farið að renna til suðurs að sögn Benedikts. Staðan breytist þó hratt.

Kom upp í miðri skjálftahrinu

Sprungan er að minnsta kosti fjórfalt lengri en hún var í eldgosinu við Litla-Hrút í júlí. 

Benedikt segir að um mikið kraftmeiri byrjun sé að ræða en í fyrri eldgosum á Reykjanesskaga á síðustu árum. 

„Það að gosið komi upp undir mikilli skjálftahrinu gefur til kynna að mikil spenna sé á svæðinu, hún datt ekkert niður áður. Það bendir til þess að það sé mikill þrýstingur á svæðinu,“ segir Benedikt. 

Skjálftar mældust í um eina og hálfa klukkustund áður en eldgos var staðfest. 

Hann segir erfitt að mæla hraunflæði núna, en það er metið um 100 til 200 rúmmetra á sekúndu. 

Sprungan færist nær Grindavíkurbæ.
Sprungan færist nær Grindavíkurbæ. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert