Syðsti hluti sprungunnar í eldgosinu sem hófst við Sundhnúkagígaröðina, norðan við Grindavík, á ellefta tímanum í gærkvöldi er við það að deyja út.
Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir svæðið á fimmta tímanum í nótt.
„Kröftugasta virknin er fyrir miðbik sprungunnar og það eru hrauntaumar sem eru að renna nyrst í ganginum til vesturs, norður fyrir Stóra-Skógafell. Grindavíkurvegur er til vesturs og hrauntungan er um það bil búin að ná 40 prósent af leiðinni. Það er búið að draga mikið úr virkni gossins frá því í byrjun og meðal hraunrennslið er 250 rúmmetrar á sekúndu. En það er mikil óvissa í mælingum varðandi hraunrennslið og þetta er aðeins fyrsta mat,“ segir Lovísa Mjöll.
Lengd gossprungunnar var talin vera um fjórar kílómetrar í nótt og var syðsti endi hennar í tæplega þriggja kílómetra fjarlægð frá Grindavík í nótt.
Lovísa Mjöll segir að gosrennslið í því sem eftir er af ganginum leiti mest til austurs í áttina að Fagradalsfjalli. Hún segir að illa hafi gengið í nótt í sambandi við gasmælingar en til stendur að fara aftur að gosstöðvunum þegar líða fer á morguninn. Vindátt er hagstæð og þannig minnka líkur á að hættulegar gastegundir leiti í byggð.
Lovísa segir að klukkan 9.30 verði vísindaráðsfundur almannavarna þar sem verður farið yfir öll gögn.