Tæpir þrír kílómetrar til Grindavíkur

Landhelgisgæslan flaug yfir svæðið nú í kvöld.
Landhelgisgæslan flaug yfir svæðið nú í kvöld. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Heldur virðist vera að draga úr krafti eldgossins sem hófst fyrir um fjórum klukkustundum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar, sem segir þetta sjást bæði á skjálftamælum og GPS-mælum.

Tekið er fram að þessi þróun sé þó ekki vísbending um hversu lengi eldgosið muni vara, heldur frekar að gosið sé að ná jafnvægi.

Rifjað er upp að sama þróun hafi sést í upphafi allra gosanna á Reykjanesskaganum síðustu ár.

Áður hefur verið greint frá því að hraun renni að mestu til norðurs og austurs.

Svona var sprungan talin liggja klukkan þrjú í nótt.
Svona var sprungan talin liggja klukkan þrjú í nótt. Kort/Veðurstofa Íslands

Gýs á allri gossprungunni

Bent er á að áfram gjósi á allri gossprungunni. Mestur sé krafturinn um miðja sprunguna á því svæði sem er merkt „Svæði 3“ og er appelsínugult á hættumatskorti sem gefið var út fyrir viku.

Sprungan er alls um fjögurra kílómetra löng og er norðurendi sprungunnar rétt austan við Stóra-Skógfell og syðri endinn rétt austan við Sundhnúk. Fjarlægðin frá syðri endanum að jaðri Grindavíkur er tæpir þrír kílómetrar, að sögn Veðurstofunnar.

Kveðst hún munu halda áfram að vakta þróun virkninnar og er í beinu sambandi við almannavarnir og viðbragðsaðila á svæðinu. Samráðsfundur vísindamanna verði haldinn í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert