Taka stöðuna á húsnæðisþörf Grindvíkinga

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, í Ráðherrabústaðnum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við þurfum greinilega að vera viðbúin öllu og halda áfram að vera varfærin í því að verja öryggi fólks,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, að ríkisstjórnarfundi loknum í dag.

Í samtali við blaðamann mbl.is sagði Sigurður Ingi, eldsumbrotin vissulega hafa verið til umræðu á fundinum í dag. 

Taka stöðuna á húsnæðisþörf

Hafa húsnæðismálin borist til tals í kjölfar atburðanna í gærkvöldi? 

„Við höfum tekið stöðuna í ráðuneytinu og kallað eftir upplýsingum. Það er fundur sem er akkúrat í gangi í augnablikinu. Þannig það er bara verið að vinna að þessu en það gengur mjög vel að koma þessu húsnæði út sem við keyptum sem er að fara út í gegn um [Leigufélagið] Bríet. Við þurfum að fá stöðuna um hversu langt það dugar og hver þörfin er núna.“

Verðum að fylgjast hvernig náttúran hagar sér

Segir ráðherrann að upplýsingar séu um að mögulega verði annar hópur, sem nú dvelur í stéttarfélagshúsnæði, sem muni þurfa á húsnæði að halda í janúar og því sé mikilvægt að taka stöðuna núna enda litlar líkur á að fólk geti snúið heim á næstunni. 

„Hafi fólk haft væntingar um að þetta væri að leysast þá er það nú kannski ólíklegt í augnablikinu. En aftur þá verðum við að fylgjast með hvernig náttúran ætlar að haga sér.“

Inntur eftir því hvort frekari verndun innviða hafi verið rædd segir Sigurður Ingi gosið sem betur fer virðast vera á heppilegum stað þó auðvitað geti allt breyst þegar náttúruöflin eiga í hlut. 

„Það er kannski fyrst og fremst Grindavíkurvegurinn og lagnir sem menn eru að skoða. En gosið virðist vera á heppilegasta stað, þó það sé mjög stórt í umfangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka