„Í nótt þrengdum við svolítið skarðið við Grindavíkurveginn því það leit út í fyrstu að það væri að koma rennsli og getur svo sem mögulega gert það.“
Þetta segir Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís. Hann segir að vinna haldi áfram við varnargarðana við Svartsengi í dag.
Segir Ari í samtali við mbl.is að í morgun hafi vinna hafist óháð eldgosinu við að halda áfram með varnargarðana og hún komi til með að standa yfir í bæði dag og líklegast á morgun.
„Við erum að vinna með skörðin, við erum ekki að loka þeim í augnablikinu. Það er ekki komin ákvörðun um það en við gerum það ef það stefnir í hættu þar.“
Hvað tekur langan tíma að fylla í skörðin?
„Það fer eftir því hvaða skarð það er, þau eru mis stór, en það verða nokkrir klukkutímar. Við erum með op í varnargarðinum þar sem Bláalónsvegurinn er, við Bláa lónið og svo á Grindavíkurveginum. Það er þau 4-5 op sem við erum að horfa til.“
Búist var við verklokum við varnargarðana við Svartsengi á morgun, miðvikudag. Ari segir að þau teygist mögulega fram á fimmtudag en áætluð verklok séu þó nær óbreytt.
Segir hann ekki hafa verið teknar ákvarðanir um að gera meira „en við auðvitað erum búin að skoða margar sviðsmyndir.“
Í því sambandi hafi meðal annars verið skoðað að verja Grindavíkurbæ. Segir hann ómögulegt að segja hvað slíkt verk tæki langan tíma í framkvæmd.
„Þessu er alltaf skipt í áfanga og forgangsraðað sem kemur inn í og hefur áhrif á myndina.“