Þróunin virðist nokkuð hagstæð

Páll Erland, forstjóri HS Veitna, segir þróunina það sem af …
Páll Erland, forstjóri HS Veitna, segir þróunina það sem af er kvöldi vera hagstæða með tilliti til innviða HS Veitna. Samsett mynd

„Við höfum verið að fylgjast með nýjustu upplýsingum í samráði við almannavarnir og Veðurstofuna. Við höfum áhyggjur annars vegar af Svartsengi og hins vegar af Grindavík en í þessum töluðu orðum virðist þróunin vera nokkuð hagstæð svo við bíðum átekta og vonum að það fari þannig,“ segir Páll Erland, forstjóri HS Veitna, í samtali við mbl.is.

Spurður út í vatnslögnina sem liggur frá Svartsengi í norðvesturátt og sér Reykjanesbæ fyrir heitu vatni segir Páll að HS Veitur séu með viðbragðsáætlun til að bregðast við því ef hún fari. 

„En staðan núna er í þá átt að það blasir ekki við að það gerist,“ segir Páll.

Gert er ráð fyrir að hraunið renni norður fyrir Sýlingafell …
Gert er ráð fyrir að hraunið renni norður fyrir Sýlingafell og svo í vesturátt. Þar sem Grindavíkurvegur þverar garðinn er skarð og er lögð áhersla á að loka því. Kort/mbl.is

Efni og gröfur á staðnum til að verja lögnina

Sú lögn er óvarin þar sem varnargarðinum sleppir. „Það er bæði efni og gröfur á staðnum til að reyna að bregðast við því,“ segir Páll.

Verður farið í það?

„Almannavarnir stýra því og það fer bara eftir því hvernig eldgosið þróast.“

Spurður hvort útlit sé fyrir að heit vatn fari af Reykjanesbæ segir Páll það vera stærstu og svörtustu sviðsmyndina. 

„Þess vegna fylgjumst við vel með. En þróunin akkúrat núna er ekki í þá átt,“ segir Páll.

Eru þið með einhver skilaboð til íbúa í Reykjanesbæ?

„Frá okkur séð er það bara að fylgjast vel með, fréttum og skilaboðum almannavarna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka