Tífalt meiri mengun: Hraunið gæti farið kílómetra á klukkustund

Frá gosstöðvunum í nótt.
Frá gosstöðvunum í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útstreymi brennisteinsdíoxíðs frá nýju gossprungunni á Reykjanesskaga er um tífalt meira en í þeim eldgosum sem brotist hafa út á skaganum síðustu tvö ár.

Þetta er niðurstaða greiningar rannsóknareiningar Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá.

Sprungan er um 4 kílómetrar að lengd og liggur frá norðurhlíðum Hagafells og norður undir Stóra-Skógfell.

Öflugir kvikustrókar

Í tilkynningu frá einingunni segir að kvikustrókarnir virðist ansi öflugir og að þeir hæstu séu um eða rétt yfir 100 metrar. Framleiðni hrauns sé þá á bilinu 100-200 rúmmetrar á sekúndu.

Hraunflæðið er því talið nema 0,5-1 kílómetra á klukkustund.

Miðað við framleiðnina og væntanlega efnasamsetningu hraunkvikunnar þá er útstreymi brennisteinsdíoxíðs yfir gosstöðvunum talið vera á bilinu 30-60 þúsund tonn á dag, eða tífalt meiri brennisteinslosun á tímaeiningu en í síðustu gosum, segir í tilkynningunni.

Mun eitraðri en brennisteinsdíoxíð

Tekið er fram að brennisteinsdíoxiðið hvarfist við vatnsgufu í andrúmsloftinu og myndi þar brennisteinssýruagnir eða -móðu, sem er mun eitraðri en brennisteinsdíoxíð. Neðst í veðrahvolfinu sé helmingunartími hvarfs brennisteinsdíoxíðs yfir í brennisteinssýru um það bil einn dagur.

„Þannig að gasútstreymið getur valdið verulegri, en tímabundinni mengun. Sem betur fer þá er núverandi vindátt norðvestlæg og samkvæmt spánni á hún að vera norðlæg á næstu dögum. Vindurinn ætti því að halda gasmenguninni að mestu frá byggðum bólum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert