Unnið að gerð hraunflæðilíkana

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, og …
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, og Björn Oddsson frá almannavarnadeild ríkslögreglustjóra flugu með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar í nótt. Ljósmynd/Almannavarnir

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir engin raunflæðilíkön tilbúin, sem unnin hafi verið eftir raungögnum hraunflæðis, á þessari stundu.

„Það er akkúrat það sem var verið að gera í þessum flugum í nótt. Þá var verið að sjá hvar og hvernig hraunflæðið er til að geta sett þær upplýsingar inn í líkanið,“ segir Hjördís. Unnið verður að gerð hraunflæðilíkans í dag og á næstu dögum.

Staðsetning gossins ágæt

Hjördís segir í samtali við mbl.is að hraunið teygi sig aðallega til vesturs í átt að Stóra-Skógfelli. Segir hún að eins og sakir standa sé ekki vitað hvort eða hvaða innviðir gætu verið í hættu vegna hraunflæðis.

„Það kom augljóslega í ljós í nótt að hraunið er ekki farið að teygja sig til suðurs. Það eru góðar fréttir og eins og margir hafa sagt þá er staðsetning gossins ágæt fyrst til þess þurfti að koma á annað borð.“

Sérstaklega fylgst með framrásinni vegna Grindavíkurvegs

Segir Hjördís búið að vinna hraunflæðilíkön síðustu þrjú ár og það sé margt sem verið sé að skoða og kanna. Segir hún fólkið sem unnið hefur með þau mál meðvitað um hverjar líkurnar séu.

Segir hún að sérstaklega sé fylgst með framrásinni vegna Grindavíkurvegs, það séu þeir innviðir sem menn hafi mestar áhyggjur af.

Verulega dregið úr krafti gossins

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, og Björn Oddsson frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra flugu með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar í nótt.

Segir Hjördís þá hafa verið sammála um að það hafi „verulega dregið úr krafti gossins á þeim fjórum tímum sem þeir flugu yfir“.

Undirbúa fyllingu skarðsins

Vinna við varnargarðana við Svartsengi var langt komin þegar eldsumbrotin hófust í gærkvöld.

„Um leið og sprungan opnaðist þá héldu allir sem voru að vinna á því svæði á brott,“ segir Hjördís.

Að sögn hennar sáu menn fyrir sér, áður en eldgosið hófst, að verklok hefðu verið á morgun, miðvikudag.

Grindavíkurvegur rífur nyrsta varnargarðinn við Svartsengi en verktakinn hefur fengið heimild til að fylla í það skarð sem vegurinn myndar. Sú vinna er ekki hafin en undirbúningur er hafinn við að ýta efni áleiðis að því svæði.

Byggja varnargarð til að verja bæinn?

Það hefur verið rætt að hefja vinnu við varnargarð til að verja Grindavíkurbæ en á þessum tímapunkti er hvorki hægt að segja til um hvort af því verði né hvar slíkur garður yrði byggður upp.

Almenningur á ekkert erindi

Hjördís biður almenning að gera sér ekki ferð að gosstöðvunum. Segir hún allar leiðir lokaðar að svæðinu. Það sé ekki um túristagos að ræða og umferðaröngþveiti á Reykjanesbraut eða á öðrum vegum nærri gosstöðvunum sé ekki æskilegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert