Varnargarðar við Voga ein sviðsmynda

Gunnar Axel er sveitarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd.
Gunnar Axel er sveitarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Axel Axelsson, sveitarstjóri í Vogum, segir að á meðal sviðsmynda í aðgerðaáætlun fyrir Voga vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga sé að reistir verði varnargarðar fyrir bæinn. 

Það sé þó ekki til skoðunar í augnablikinu, enda kalli aðstæður ekki á það ef miðað sé við hraunflæðislíkön í sinni núverandi mynd. 

Brugðið við atburði gærkvöldsins

„Eins og öllum öðrum þá var manni brugðið,“ segir Gunnar, spurður um atburði gærkvöldsins.

„Gosið virtist afar nærri byggð til að byrja með þó annað hafi komið á daginn og kannski engin sérstök hætta af þessu á þessu stigi.“

Að sögn Gunnars var aðgerðastjórn sveitarfélagsins að störfum fram á nótt, en hún samanstendur af framkvæmdastjórn þess ástamt þeim sem fara fyrir helstu sviðum sveitarfélagsins. Hann segir hlutverk aðgerðastjórnarinnar felast í því að gæta hagsmuna sveitarfélagsins og huga að innviðum þegar viðburðir á borð við eldgos eigi sér stað.

Gunnar tekur fram að til staðar sé aðgerðaáætlun fyrir svæðið í heild sinni og að innan hennar sé bygging varnargarða fyrir voga á meðal mögulegra sviðsmynda. Þó sé ekki til skoðunar að svo stöddu að hrinda byggingum varnargarða af stað því ekki séu forsendur fyrir því eins og málin standi. 

Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum.
Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum. mbl.is/Sigurður Bogi

Umferðarteppa myndaðist við afleggjarann

Gunnar segir helstu að helstu aðgerðir sem þurft hafi að grípa til í bænum í gær hafi tengst umferðarþunga sem myndaðist á Reykjanesbraut í gærkvöldi. Þá hafi stór hópur meðal annars numið staðar við afleggjarann að Vogum til þess að fylgjast með gosinu.

„Þetta var hálfgert ástand á tímabili því það voru margir komir úr borginni til að skoða. Það er náttúrulega ekki það besta ef það myndast umferðarteppa á Reykjanesbrautinni í svona ástandi,“ segir Gunnar.

Hann bætir við að lögregla hafi að lokum leyst upp umferðarteppuna og lokað Reykjanesbrautinni tímabundið í gærkvöldi til þess takast á við umverðaröngþveitið.

Fjölmargir voru á Reykjanesbrautinni og vildu sjá gosið.
Fjölmargir voru á Reykjanesbrautinni og vildu sjá gosið. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert