Vinnu að ljúka við varavatnsból

Páll Erland, forstjóri HS Veitna, fylgist grannt með gangi mála.
Páll Erland, forstjóri HS Veitna, fylgist grannt með gangi mála. Samsett mynd

Eins og staðan lítur út núna vegna eldgossins á Reykjanesskaga eru kerfi HS Veitna ekki í hættu en vel er fylgst með stöðu mála. 

Þetta segir Páll Erland, forstjóri HS Veitna, sem var að hefja fund með neyðarstjórn þegar hann ræddi við blaðamann.

„Hættan er alls ekki liðin hjá en eins og staðan er núna er þetta ekki að ógna henni,” segir Páll, spurður út í vatnslögnina frá Svartsengi sem sér Reykjanesbæ fyrir heitu vatni.

Gert er ráð fyrir að hraunið renni norður fyrir Sýlingafell …
Gert er ráð fyrir að hraunið renni norður fyrir Sýlingafell og svo í vesturátt. Kort/mbl.is

Klára að tengja í dag

Hann segir margs konar vinnu standa yfir hjá HS Veitum og nefnir að fyrirtækið hafi undanfarnar vikur verið að undirbúa sig fyrir mögulegt eldgos.

Meðal annars er verið að ljúka við varavatnsból við Árnarétt hjá Garði. Þar á að klára að tengja rafmagn við dælustöð í dag. „Þetta er aðgerð sem við hófum fyrir nokkrum vikum til þess að geta sinnt íbúum norðanmegin ef vatnsbólið í Lágum við Svartsengi stöðvast,” greinir Páll frá.

„Kalda vatnið er algjör grunnforsenda byggðar og atvinnulífs og það þarf að vera aðgengi að því ef eitthvað bjátar á.”

Eldgosið hófst í gærkvöldi.
Eldgosið hófst í gærkvöldi. Ljósmynd/Almannavarnir

Rafdreifingarkerfið styrkt

Styrking rafdreifingarkerfisins heldur einnig áfram til að bregðast við því ef heita vatnið frá Svartsengi hættir að berast.

„Við höldum áfram aðgerðum til þess að vera undir það búin, að fólk fari að kynda húsin sín með öðrum hætti en heita vatninu,” bætir hann við.

Páll vonar þó að ekkert muni reyna á þessar ráðstafanir.

„Við látum bara verkin tala og reynum að sinna þjónustu vel á þessum erfiðu tímum.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka