Allt orðið „mauksprungið“

Kristín Jónsdóttir deildarstjóri frá Veðurstofu Íslands.
Kristín Jónsdóttir deildarstjóri frá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Arnþór

Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofu Íslands, telur ástæðuna fyrir því að ekki gáfust skýrari merki um að gos væri vændum á mánudagskvöldið vera að allt hafi verið orðið „mauksprungið.“

„Kerfið var orðið svo opið, þannig það í rauninni mynduðust ekki svo skýr merki fyrr en mjög stuttu áður,“ sagði Kristín í samtali við mbl.is að upplýsingafundi almannavarna loknum, er blaðamaður spurði hvort nýjasta gosið á Reykjanesskaganum væri meira óútreiknanlegt en fyrri gos.

Innt eftir því hvort kenningar um að goslok geti orðið um eða eftir helgi eigi við einhver rök að styðjast, segir Kristín það alveg geta verið líklegt. 

Kvikuhlaup þarf ekki að hafa í för með sér eldgos.
Kvikuhlaup þarf ekki að hafa í för með sér eldgos. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gæti gerst aftur

Gæti komið upp annar atburður, þá jafnvel nær Grindavík, innan skamms?

„Þá þyrftum við náttúrulega að sjá aftur ferli þar sem kvika fer að safnast saman í Svartsengi og það er alveg vissulega rétt. Þá erum við að hugsa um svipað kerfi og var í Kröflu, þar sem það safnast saman kvika í kvikuhólfinu og svo hleypur hún inn í sprungusveiminn,“ segir Kristín.

„Þá erum við að tala um að hún hlaupi inn í Sundhnúkagígaröðina. Þetta er alveg eitthvað sem auðvitað gæti gerst aftur. En við erum ekki þar núna svo það er erfitt að spá í framtíðina.“

Að sögn Kristínar voru í tilfelli Kröflu um 20 kvikuhlaup …
Að sögn Kristínar voru í tilfelli Kröflu um 20 kvikuhlaup á 10 árum sem hafi endað með 9 gosum.

Verður ekki alltaf gos þrátt fyrir kvikuhlaup

Hún segir að í stóru myndinni sé horft til þess að eins konar mynstur muni endurtaka sig eins og í Kröflu, þar sem mikil söfnun í kvikuhólfi leiði til þess að kvika brjótist út eftir sprungu. Ítrekuð kvikuhlaup verði síðan inni í slíkri sprungu. 

Að sögn Kristínar voru í tilfelli Kröflu um 20 kvikuhlaup á 10 árum sem hafi endað með 9 gosum. Segir Kristín því mikilvægt að hafa í huga að þó að kvikuhlaup eigi sér stað sé ekki þar með sagt að úr verði gos.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert