Það virðist hafa dregið enn meira úr virkni eldgossins við Sundhnúkagíga. Erfitt er þó að staðfesta það vegna mjög lélegs skyggnis á svæðinu. Ekki er gott að sjá á myndavélum hvað er að gerast.
Þetta segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Lítil sem engin skjálftavirkni hefur verið í nótt og dregið hefur úr óróa.
„Það er enn þá í gangi, maður sér blossa en mun minna en í gær,” segir Minney um eldgosið.
Vísindamenn Veðurstofunnar fara í mælingarflug yfir eldgosinu í dag ef veður leyfir. Því þurfti að aflýsa í gær vegna veðurs.
Stöðufundur verður tekinn klukkan 9.30 í dag þegar vísindaráð almannavarna kemur saman og verður í kjölfarið birt tilkynning með nýjustu upplýsingum.