Gæti jafnvel lokið um eða eftir helgina

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að gosinu gæti lokið um eða …
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að gosinu gæti lokið um eða eftir helgina. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði, segir að enn frekar hafi dregið úr gosinu við Sundhnúkagíga og að virknin sé meira og minna afmörkuð við einn gíg á sprungunni.

„Gosið er töluvert veikara heldur en það var í gær og þær slettur og strókar sem koma upp eru minni og veikari. Mér sýnist þetta vera að smátt og smátt að lognast útaf og gosinu gæti jafnvel verið lokið um eða eftir helgina,“ segir Þorvaldur við mbl.is.

Þorvaldur segir að þar með sé ekki sagt að þessi goshrina og umbrot sem hafa verið á þessu svæði undanfarin ár séu yfirstaðin.

„Mér finnst það mjög líklegt að við munum fá fleiri svona hrinur í svipuðum dúr og við höfum verið að horfa á. Ef við horfum á söguna á Reykjanesinu þá vara svona eldsumbrot að meðaltali í 10-30 ár. Það er enginn vissa fyrir einu eða neinu og enginn veit nákvæmlega hvað þetta verður langt tímabil, hversu margir atburðirnir verða og hvenær þeir koma,“ segir Þorvaldur. 

Spurður hvort dvínun gossins sé í takti við fyrri gos segir Þorvaldur:

„Nei þetta er aðeins öðruvísi atburðarás að því leytinu að þetta virðist vera mun styttra og eins líka að krafturinn í byrjun var meiri en dettur síðan mjög hratt niður. Það gerðist reyndar líka í gosinu við Litla Hrút fyrr á árinu. Þá var krafturinn töluvert meiri í byrjun heldur en í hinum gosunum en datt hratt niður líka,“ segir Þorvaldur.

Kort af hraunútbreiðslu vegna gossins við Sundhnúkagíga 19. desember.
Kort af hraunútbreiðslu vegna gossins við Sundhnúkagíga 19. desember. Kort/mbl.is

Hann segir að hrunflæðið í Litla hrúti hafi verið 40 rúmmetrar á sekúndu í byrjun en tölur sýna að hraunflæðið í gosinu sem hófst við Sundhnúkagíga í fyrrakvöld hafi verið um það bil 300 rúmmetrar á sekúndu í byrjun en sé nú komið í 10-20 rúmmetra á sekúndu.

„Það var að pumpast inn kvika í tiltölulega grunnt geymsluhólf á um 4-5 kílómetra dýpi og byggja upp það mikinn þrýsting í því sem bjó til mikla framleiðni í byrjun. Þetta hólf tæmist tiltölulega hratt og þar með lognast gosið útaf mjög hratt,“ segir Þorvaldur.

Sundhnúkagígagosið trónir yfir öðrum eldsumbrotum á Reykjanesskaga undanfarin ár þegar …
Sundhnúkagígagosið trónir yfir öðrum eldsumbrotum á Reykjanesskaga undanfarin ár þegar kemur að hraunrennsli í upphafi goss. Kort/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka