Myndefni sýnir konuna valda manninum líkamsmeiðingum

Konan hefur verið ákærð fyrir að hafa orðið manninum að …
Konan hefur verið ákærð fyrir að hafa orðið manninum að bana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur staðfesti í gær áframhaldandi gæsluvarðhald yfir konu á fimmtugsaldri sem grunuð er um að hafa orðið manni að bana í fjölbýlishúsi við Bátavog 23. september. Skal konan sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 11. janúar.

Myndefni sem tekið var upp 22. og 23. september á síma konunnar og mannsins, sýnir konuna valda manninum ítrekuðum líkamsmeiðingum. Þá heyrðu nágrannar öskur í karlmanni sömu daga.

Slappur og orkulaus

Í úrskurði Landsréttar eru málsatvikum lýst. Þar segir að konan hafi sjálf hringt í neyðarlínu kvöldið 23. september og óskað eftir aðstoð. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang lá maðurinn og andaði ekki. Báru endurlífgunartilraunir ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn.

Konan sagði viðbragðsaðilum á vettvangi að maðurinn hefði verið slappur og orkulaus dagana á undan og sídettandi. Hefði hann vart staðið í fæturna.

Í skýrslutöku daginn eftir kvaðst konan lítið muna eftir gærdeginum. Hún mundi þó eftir einhverjum átökum milli hennar og mannsins. Sagði hún hann hafa verið með sjálfsskaðahugmyndir og reynt að valda sjálfum sér áverkum.

Við réttarlæknisfræðilega skoðun komu fjórir daufir marblettir í ljós á konunni. Hún var ekki með aðra áverka.

Vitni heyrðu öskur

Í úrskurðinum kemur fram að tvö vitni hafi orðið þess vör að konan hafi beitt manninn ofbeldi kvöldið áður en hann lést. Heyrðu nágrannar í húsinu læti og öskur í karlmanni 22. og 23. september.

Á myndböndum og hljóðupptökum sem tekin voru upp á síma mannsins og konunnar dagana 22. og 23. september, má sjá og heyra konuna valda manninum ítrekuðum líkamsmeiðingum, að því er fram kemur í úrskurðinum.

Er myndefnið um tvær og hálf klukkustund að lengd og er það tekið upp yfir tímabil sem nær frá hádegi á föstudeginum 22. september til rúmlega eitt næsta dag.

Fjölþættir áverkar komu í ljós á hinum látna við réttarkrufningu. Segir í bráðabirgðaskýrslu réttarkrufningar að áverkamyndin sé talin hafa verið nægilega veigamikil til að valda dauða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert