Nýtt hættumat: Minni líkur á gossprungu í Grindavík

Eldgos hófst við Sundhnúkagíga að kvöldi 18. desember.
Eldgos hófst við Sundhnúkagíga að kvöldi 18. desember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mesta virknin í eldgosinu síðasta sólarhringinn hefur haldist um miðbik sprungunnar sem opnaðist á mánudagskvöld. Skjálftavirkni hefur haldist nokkuð stöðug og litlar breytingar hafa orðið á aflögun jarðskorpunnar frá því að eldgos hófst.

Í ljósi þessa, er það mat Veðurstofunnar að líkurnar á að nýtt gosop myndist án fyrirvara innan Grindavíkur hafi minnkað.

Frá þessu greinir stofnunin í tilkynningu.

Greint var frá því á mbl.is í gærkvöldi að Veðurstofan teldi auknar líkur á að gossprunga opnaðist án fyrirvara í Grindavík.

Nýtt hættumatskort Veðurstofunnar tekur gildi kl. 7 að morgni 21. …
Nýtt hættumatskort Veðurstofunnar tekur gildi kl. 7 að morgni 21. desember.

Kvikan getur komið hratt upp á yfirborðið

Það mat hefur breyst eins og áður sagði og hefur Veðurstofan því gefið út nýtt hættumatskort. Tekur það gildi á morgun, fimmtudaginn 21. desember, kl. 7 árdegis.

Tekið er fram að þrátt fyrir að líkurnar á gosopnun í Grindavík hafi minnkað, þá sé hættan þar engu að síður metin töluverð.

„Þó svo að dregið hafi úr virkninni frá því að gos hófst, er kraftur gossins núna engu að síður mikill og er sambærilegur við gosin sem urðu við Fagradalsfjall,“ segir í tilkynningunni.

„Það hefur einnig sýnt sig að kvikan getur komist hratt upp á yfirborðið sem gefur ekki mikið ráðrúm til þess að senda út viðvaranir. Taka þarf tillit til þessa þegur kemur að endurskoðun á hættumati. Eins þurfa nokkrir dagar að líða frá því að hraunflæði hættir við gosstöðvarnar og þangað til hægt væri að lýsa yfir goslokum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert