Björn Jóhann Björnsson, Höskuldur Daði Magnússon
Eldgosið við Sundhnúkagíga hefur leyst úr læðingi mun meira kvikuflæði en sést hefur í jarðeldum á Reykjanesskaganum síðustu ár. Að mati Páls Einarssonar, prófessors emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, er erfitt að spá um hvað næstu dagar muni hafa í för með sér.
Páll segir gosið sverja sig í ætt við hefðbundin eldgos á Íslandi og svipi upphafi þess til gosanna í seinni hluta goshrinunnar í Kröflu.
Aukin hætta er talin á því að gossprungur opnist án fyrirvara innan bæjarmarka Grindavíkur. Jafnframt er talið að hraun muni flæða til norðurs í átt að Grindavíkurvegi á næstu dögum og verði jafnvel komið að veginum á jóladag.
Gosið hefur þegar sett strik í reikning ferðaþjónustunnar. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir þegar hafa borið á afbókunum og tilfærslum á ferðum til Íslands næstu mánuði.
„Það er enn óvíst með framhaldið,“ segir Jóhannes. „Við verðum að sjá hvernig spilast úr þessu gosi. Ef hræringarnar halda lengi áfram geta áhrifin á ferðaþjónustuna verið mikil inn í næsta ár.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.