Skoða varnargarða í kringum Grindavík

Gervihnattamynd af Grindavík.
Gervihnattamynd af Grindavík. AFP/Maxar Technologies

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segir það vera til skoðunar að reisa varnargarða í kringum Grindavík.

Verkið sé þó ekkert smáræði þar sem umfang þess sé mun meira en við Svartsengi. 

Grindvíkingar kallað eftir varnargörðum

Að sögn Víðis, sem gaf sig á tal við blaðamann mbl.is að loknum upplýsingafundi almannavarna í dag, verða samráðsfundir haldnir með lögbundnum aðilum áður en ákvörðun verður tekin um uppbyggingu varnargarða við Grindavíkurbæ.

Hann segir Grindvíkinga ítrekað hafa kallað eftir byggingu varnargarða í kringum bæinn. 

„Þetta er gríðarlega mikið mannvirki, þetta er miklu meira mannvirki heldur en garðurinn í kring um Svartsengi. Bæði er hann hærri á köflum og svo er hann lengri,“ segir Víðir.

„Kostnaðaráætlun fyrir slíkan garð er einhvers staðar í kringum sjö milljarða. Þannig þetta er ekkert einföld ákvörðun að taka og það sem við viljum fá tryggt er gagnsemin.“

Frá upplýsingafundi almannavarna í Skógarhlíðinni í dag.
Frá upplýsingafundi almannavarna í Skógarhlíðinni í dag. mbl.is/Arnþór

Þröskuldurinn fyrir rýmingar lægri

Víðir segir að í ljósi atburðarásar mánudagskvöldsins þurfi þröskuldurinn fyrir rýmingar í Grindavík að vera miklu lægri, hvort sem það sé að degi til eða þegar komi að því að fólk geti snúið heim til frambúðar. 

Hann segir fyrirvara gossins hafa verið mun skemmri en við var búist og því þurfi að stytta þætti rýmingarferlisins. 

Ferlið lýsi sér í nokkrum þáttum; lestri vísindafólks á gögnum, túlkun gagnanna og þar næst upplýsingagjöf til almannavarna sem ræða síðan við viðkomandi lögreglustjóra sem að lokum taki ákvörðunina. 

Fjárfesta í sírenum í Grindavík 

„Þennan feril ætlum við að stytta eins og mögulegt er. Veðurstofan er að vinna að því að gera mikið fleiri af þessum hlutum eins sjálfvirka og hægt er,“ segir Víðir

Hann bætir við að einnig verði fjárfest í ýmsum búnaði fyrir Grindavík, þar á meðal sírenu, til að stytta þann tíma sem það tekur að ná til fólks þegar um neyðarástand er að ræða.

Einnig þurfi að tryggja að allar leiðir séu greiðar út úr bænum svo að tíminn sem það taki fyrir fólk að koma sér út úr bænum styttist. 

Horfa öðruvísi á rýmingar í framtíðinni 

Loks segir Víðir atburði síðustu vikna hafa verið lærdómsríka að mörgu leyti, en spurður hvort Bláa lónið hafi verið opnað fyrr en æskilegt var segir hann að opnunin verði til þess að horft verði öðruvísi á sambærilegar aðstæður í framtíðinni. 

„Ég held að það sem við getum lært af þessu er hvað náttúran er ófyrirsjáanleg,“ segir Víðir. 

„Þrátt fyrir alla þá tækni og þekkingu sem við búum yfir þurfum við samt sem áður að bera mikla virðingu fyrir náttúrunni og hún er ekki mikið í tölfræði og slíku, heldur hegðar sér bara eins og hún hegðar sér.

Við erum með okkar besta fólk að reyna að lesa úr og við lærum af hverjum einasta atburði og þessi atburður verður alveg örugglega til þess að við horfum öðruvísi á svona aðstæður í framtíðinni. Og eins og ég sagði áðan, til að tryggja þennan tíma, að hann verði nægur til að koma fólki í burtu. Þá í staðinn fyrir að tala um 2-4 klukkutíma erum við kannski að tala um 1-2, jafnvel minna í einhverjum tilfellum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert