Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir það auðvitað vera mönnum þungbært að taka ákvörðun um að banna alla umferð og viðveru í Grindavík. Lögreglan muni þó koma til með að sinna ákveðnum séraðgerðum í Grindavík á meðan bannið er í gildi.
Lögreglustjórinn bannaði í morgun alla umferð og viðveru í Grindavíkurbæ á meðan nýtt hættumatskort er í gildi. Segir hann kortið fyrst og fremst vera forsendu ákvörðunarinnar.
„Það er góður samhljómur um það sem lögreglustjórinn gerir,“ segir Úlfar í samtali við mbl.is en hann kynnti niðurstöðuna á fundi með Veðurstofu Íslands, vísindamönnum og almannavörnum í morgun.
„Á sama tíma er mat á hættu í stöðugri endurskoðun hjá Veðurstofunni. Að öllu óbreyttu gildir það til 28. desember, en það getur breyst,“ segir Úlfar. Spurður út í það hvað þurfi að gerast til að aftur opni fyrir umferð um Grindavík segir hann að breytingar verði að verða á hættumati Veðurstofunnar.
„Við reynum að verja flesta hagsmuni. Við látum ekki dýr drepast inni í Grindavík. Við erum alltaf í séraðgerðum til hliðar við það sem er sagt,“ segir Úlfar og útskýrir að í Grindavík sé til dæmis rekstur þar sem þarf að koma í einu sinni á dag til að fóðra dýr.
„Í augnablikinu er hættulegasta svæðið þar sem gosið er, og á þessu sprungusvæði. Við megum ekki gleyma því að það gýs á sprungu sem nær í gegnum Grindavíkurbæ og út í sjó. Í augnablikinu sýnist mér gosið vera á heppilegum stað en eins og vísindamennirnir segja þá getur þetta færst til. Þetta er allt að breytast og þetta er stöðugt í endurskoðun,“ segir Úlfar.