„Tilefnislausar upphrópanir“ um skipan sendiherra

Sumir hafa sett spurningamerki við það að utanríkisráðherra tilnefni fyrrverandi …
Sumir hafa sett spurningamerki við það að utanríkisráðherra tilnefni fyrrverandi aðstoðarmann sinn sem tímabundinn sendiherra í Bandaríkjunum. Samsett mynd

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra kallar það tilefnislausar upphrópanir“ að hann sé gagnrýndur fyrir að skipa fyrrverandi aðstoðarmann sinn annars vegar og ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins hins vegar í sendiherrastöður.

„Það sem við erum að gera er að taka ákvarðanir um breytingar í utanríkisþjónustunni sem taka gildi í ágúst á næsta ári,“ segir Bjarni við mbl.is og útskýrir að breytingarnar séu m.a. fólgnar í því að skipuðum sendiherrum fækki og verði aðeins 24 á næsta ári. Til samanburðar voru þeir 41 árið 2017.

Þrátt fyrir fækkun skipaðra sendiherra leggur Bjarni til að einn nýr sendiherra verði skipaður. Hann verður í Róm og var það Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins til margra ára, sem varð fyrir valinu.

Jafnframt leggur Bjarni til að Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og fyrrverandi aðstoðarmaður sinn, verði skipaður í stöðu tímabundins sendiherra til Bandaríkjanna. Stjórnvöld í Washington eiga eftir að fallast á tillögu Bjarna en hann vonar að hún verði samþykkt.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Birtingarmynd spillingar“ 

Fyrir vikið hafa sumir gagnrýnt Bjarna, þar á meðal Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sem skrifar í í færslu á Facebook að skipanin sé „birtingarmynd spillingar sem er viðurkennd innan ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur“ 

„Mér finnst þessi gagnrýni vera tilefnislausar upphrópanir. Það sem öllu skiptir hér er að við séum að fá inn í utanríkisþjónustuna hæfa, öfluga einstaklinga, með þá reynslu og hæfni sem lögin fjalla um,“ segir Bjarni.

Honum þykir það skynsamlegt að hafa „hæfilega blöndu af fólki með fjölbreyttari reynslu heldur en eingöngu innan úr utanríkisþjónustunni“ í stöðu sendiherra.

Tekur „alla pólitíska ábyrgð“ á skipuninni

Spurður hvort honum þyki rétt að kalla þetta val á sendiherrum „pólitíska skipun“ með tilliti til þess að hann hafi unnið náið með bæði Guðmundi og Svanhildi svarar hann með því að segjast taka „alla pólitíska ábyrgð“ á skipuninni.

„Hér er verið að leita til einstaklinga sem hafa þekkingu, hæfni og getu,“ segir hann.

Ráðherrann segir nokkur fordæmi vera fyrir því að ráðuneytisstjórar fara í utanríkisþjónustu en það sé „síst hægt að kalla það stöðuhækkun“ fyrir Guðmund að fara úr „einu valdamesta embætti stjórnkerfisins“ yfir í embætti sendiherra í Róm. 

Bjarni gegndi embætti fjármálaráðherra nær óslitið í ára­tug þar til í haust, þegar hann skipti um embætti við Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur sem er nú utanríkisráðherra.

Guðmundur verður nýr sendiherra Íslands í Róm, höfuðborg Ítalíu.
Guðmundur verður nýr sendiherra Íslands í Róm, höfuðborg Ítalíu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svanhildur „ótvírætt“ hæf en traust og trúnaður skipta máli 

Finnst þér ekkert skrítið við það að senda fyrrverandi aðstoðarmann þinn í sendiráðið?

„Það er einmitt vegna þess að við störfuðum um langt árabil saman að ég þekki til hæfni og færni Svanhildar,“ svarar Bjarni.

Bjarni vill að Svanhildur Hólm Valsdóttir, formaður Viðskiptaráðs og fyrrverandi …
Bjarni vill að Svanhildur Hólm Valsdóttir, formaður Viðskiptaráðs og fyrrverandi aðstoðarmaður sinn, verði sendiherra í Bandaríkjunum. mbl.is/María

„Auðvitað er það þannig að það skiptir mig máli að það sé gott traust, mikill trúnaður og trú á þá einstaklinga sem koma til starfa í þjónustunni á meðan ég er hér,“ bætir hann við en bendir á að það sé „alveg ótvírætt“ að Svanhildur hafi þá reynslu sem þurfi til þess að gegna starfi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.

Hann segist taka eftir því að þeir sem gagnrýni skipunina hafi ekkert við Svanhildi að athuga „og trúa því að hún muni leysa verkefni sín farsællega af hendi“.

Bjarni segir einnig að þá megi heldur ekki gera lítið úr hennar menntun og reynslu úr fjölmiðlum. Svan­hild­ur er menntaður lög­fræðing­ur og hef­ur einnig lokið MBA-gráðu frá Há­skól­an­um í Reykja­vík. Hún starfaði sem fjöl­miðlakona um ára­bil og vann meðal ann­ars sem um­sjón­ar­maður Kast­ljóss og Íslands í dag á sín­um tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert