Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur bannað alla umferð og viðveru í Grindavíkurbæ á meðan nýtt hættumatskort er í gildi. Var þetta ákveðið eftir fund aðgerðarstjórnar og vettvangsstjórnar í morgun.
Nýtt hættumatskort, sem gefið var út í gær, er að óbreyttu í gildi til fimmtudagsins 28. desember.
Í hættumatinu kemur fram að hætta hafi aukist umtalsvert á öllum svæðum sem skilgreind voru á eldra hættumatskorti á Reykjanesskaga, það eru svæði 1 til 4. Þá bættust í gær tvö ný svæði við kortið, svæði 5 og 6.
Áfram verður takmörkuð starfsemi á svæði 1 en engin starfsemi er og verður í Bláa lóninu á gildistíma hættumatskortsins.
Lokunarpóstar eru sem fyrr á Grindavíkurvegi, Nesvegi og Suðurstrandarvegi. Viðbragðsaðilar dvelja ekki lengur í Grindavík en þurfa í undantekningartilfellum að sinna verkefnum í bænum. Lögreglan er með sólarhringsvakt við Grindavík.