„Við bjuggumst við að fá mun lengri tíma“

Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofu Ísland.
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofu Ísland. mbl.is/Óttar

Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að það hafi komið sér á óvart hversu brátt gosið við Sundhnúkagíga bar að.

Eldgosið braust út klukkan 22.17 í fyrrakvöld. Það var mjög kröftugt í byrjun en smám saman hefur dregið úr virkni gossins.

„Það hefur dregið úr hraunflæði og virkni í gígunum. Það eru ennþá tveir gígir virkir en sá sem er nær Stóra-Skógfelli er virkari,“ segir Kristín við mbl.is.

Lognast mögulega útaf

Hún segir að hraunbreiðan hafi ekki stækkað mikið og það hafi dregið mikið úr hraunflæðinu í gosinu. Hún segir vel mögulegt að gosið lognist útaf á nokkrum dögum en of snemmt sé að segja til um það.

„Það er hugsanlegt að það sé streymi, svipað og gerðist í Fagradalsgosinu 2021, sem sé að fara inn í ganginn. Ef að það gerist er ekki mjög mikill hraði á því streymi og verður þá álíka framleiðsla og var í gosunum í Fagradalsfjalli. Þá erum við að tala um 5-10 rúmmetra á sekúndu,“ segir Kristín.

Eldgosið við Sundhnúkagíga hófst í fyrrakvöld.
Eldgosið við Sundhnúkagíga hófst í fyrrakvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Veðurstofan sendi frá sér nýtt hættumat undir kvöld í gær. Á hverju byggir það?

„Hættumatið byggir alltaf á niðurstöðu vísindaráðs sem í eru hópur frá Háskóla Íslands, Veðurstofunni og HS Orku sem taka þátt í þessu samtali. Þar er metið hvaða hættur eru fyrir hendi og þegar hættumatið í gær var gefið út þá var gosið nýhafið og atburðarásin afar hröð þannig að kerfið er mjög opið. Þar með er mikil óvissa og því er alveg eðlilegt að það sé hátt viðvörunarstig,“ segir Kristín.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur bannað alla umferð og viðveru í Grindavíkurbæ á meðan nýtt hættumatskort er í gildi og að óbreyttu til fimmtudagsins 28. desember.

Hófst með skjálftahrinu 90 mínútum fyrir gos

Spurð hvenær Veðurstofan hafi vitað það með vissu að gos væri að hefjast segir Kristín:

„Þetta gerðist rosalega hratt sem hófst með skjálftahrinu 90 mínútum fyrir gos. Að þessi skjálftahrina væri að marka kvikuhlaup var ekki ljóst alveg strax og segja má að gosið hafi borið mjög brátt að og er til marks um það hversu þetta kerfi er í rauninni orðið opið og hvað atburðirnir 10. nóvember voru búnir að brjóta mikið.“

Hún segir að ekki hafi verið mjög skýr merki um að kvika væri á ferðinni fyrr en stuttu áður en það fór að gjósa.

Oft hefur verið talað um óróapúls sem viðvörun í aðdraganda eldgosa. Spurð út í það segir Kristín:

„Við höfum aðeins verið að hnika til í orðfærum hjá okkur og við höfum ekki nefnt óróapúls. Í þessu tilviki var þetta kröftug skjálftahrina en að hún myndi leiða til eldgoss tók smátíma að átta okkur á því. Þetta voru ekki skýr merki og þetta bar mjög brátt að sérstaklega í ljósi þess að þegar kvikuhlaupið varð 10. nóvember þá var það ferli sem tók marga klukkutíma. Þetta var ekki það sem við bjuggumst við og kom okkur á óvart. Við bjuggumst við að fá mun lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert