Allir sem koma eru meðvitaðir um hættuna

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir ómögulegt að segja til um það hvort margir Grindvíkingar fari að heimilum sínum í dag en íbúum og starfsmönnum fyrirtækja er nú heimilt að dvelja og starfa í bænum frá klukkan 7 til 16 daglega.

„Það er rólegt yfir þessu í augnablikinu. Það er stöðufundur hjá okkur klukkan 9 og þá förum við yfir það sem liðið er og það sem framundan er,“ segir Úlfar við mbl.is.

Veðurstofa Íslands gaf út nýtt hættumatskort í gærkvöld og í kjölfarið tók lögreglustjórinn á Suðurnesjum þá ákvörðun að heimila íbúum og starfsmönnum fyrirtækja að dvelja og starfa í bænum á áðurnefndum tíma. Ekki er talið öruggt að dvelja í bænum að næturlagi.

Úlfar segir að það verði sama eftirlit á lokunarpóstum og verið hefur en íbúum og starfsmönnum fyrirtækja verður ekki fylgt inn í bæinn en viðbragðsaðilar verða til staðar.

„Vonandi gengur þetta allt vel og allir þeir sem koma í bæinn eru meðvitaðir um þessar hættur sem eru til staðar,“ segir Úlfar.

Ef til þess kemur að rýma þurfi bæinn verði það gefið til kynna með hljóð- og ljósmerkjum og viðbragðsaðilar munu bregðast skjótt við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert