Edda áfram í gæsluvarðhaldi

Edda Björk Arnardóttir, hægra megin, ásamt verjanda sínum, Sol Elden, …
Edda Björk Arnardóttir, hægra megin, ásamt verjanda sínum, Sol Elden, í Héraðsdómi Telemark í Skien fyrr í vikunni. Dómari úrskurðaði í morgun að Edda sæti áfram í gæsluvarðhaldi uns dómur fellur í máli hennar í janúar. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Truls Eirik Waale, dómari við Héraðsdóm Telemark í Skien í Noregi, kvað í morgun upp þann úrskurð að kröfu Eddu Bjarkar Arnardóttur og verjanda hennar, Sol Elden, um að Edda yrði látin laus úr gæsluvarðhaldi sínu í fangelsinu í Skien, sé hafnað.

Situr Edda því áfram í varðhaldinu þar til dómur fellur í máli hennar í byrjun janúar og hefur þá þegar afplánun hans í framhaldinu verði um áfellisdóm að ræða.

Í úrskurði Waale, sem mbl.is hefur undir höndum, kemur fram að svo sem 171. grein norsku hegningarlaganna mæli fyrir um sé beiting gæsluvarðhalds heimil meðal annars sé hætta fyrir hendi á að sakborningur geri tilraun til að koma sér undan réttmætri refsingu eða endurtaki brot sitt.

Enginn trúnaður réttarins

„Rétturinn telur ástæðu til að óttast að [ákærða] muni reyna að koma sér undan refsingu gangi hún laus,“ skrifar Waale í úrskurði sínum. „Hún hefur engin tengsl við Noreg. Það að hún geti fengið íbúð [í Noregi] lánaða eða leigða á meðan hún bíður loka málsmeðferðarinnar skapar í sjálfu sér enga tengingu. Börn hennar og annað bakland er á Íslandi.“

Edda Björk Arnardóttir í viðtali við mbl.is í héraðsdómi í …
Edda Björk Arnardóttir í viðtali við mbl.is í héraðsdómi í vikunni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Ritar Waale enn fremur að ástæða sé til að ætla að Edda njóti aðstoðar ættingja og/eða annars aðstoðarfólks sem aðstoði við að halda börnum hennar í felum á Íslandi. „Svo byggt sé á svörum hennar við spurningum réttargæslulögmanns [barnanna] fyrir dómi neitar hún að upplýsa hvar börn hennar eru niður komin. Rétturinn leggur engan trúnað á að henni sé ekki kunnugt um íverustað þeirra,“ skrifar dómari og kemur því næst að þungamiðju úrskurðar síns:

„Það hvernig börnin voru sótt til Noregs í mars 2022 gefur enn fremur til kynna að henni sjálfri eða aðstoðarfólki hennar sé kleift að beita aðferðum sem skapi hættu á að hún komi sér undan refsingu og telur rétturinn fulla ástæðu til að ætla að hún muni gera það með það fyrir augum að komast á ný til barna sinna þar sem þau eru.“

Þá vísar Waale til samskipta milli norskrar og íslenskrar lögreglu þar sem fram komi að Edda hafi reynt að koma sér undan handtöku á Íslandi með því að fara huldu höfði þar til lögregla handtók hana 28. nóvember.

Í trássi við dóma

„Ákærða hefur ítrekað sýnt eindreginn ásetning til að hafa niðurstöður norskra og íslenskra dómstóla að engu auk þess sem rétturinn vísar til þeirrar ákvörðunar Landsréttar á Íslandi frá 31. janúar 2023 að börnin skuli flutt aftur til Noregs. Einnig vísar rétturinn til þess framburðar [Eddu] við aðalmeðferðina að hún muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að börnin brottnumdu verði áfram á Íslandi,“ segir enn fremur í úrskurðinum.

Edda hafi greint frá því við aðalmeðferðina að hún hafi aðhafst í trássi við dóma í því augnamiði að börnin sjálf fái að ákveða hvar þau vilji vera. Enn sýni hún engan vilja til að upplýsa um hvar börnin sé að finna heldur sé sannfærð um að þau muni líða þjáningar við flutning til baka til Noregs.

„[...] aðferðin við að nema börnin á brott frá Noregi og þau bjargráð [n. ressurser] sem [Edda] virðist sjálf, eða gegnum stuðningsnet sitt, hafa aðgang að gerir það að verkum að rétturinn telur yfirgnæfandi líkur á, gangi [hún] laus, að háttsemi hennar muni áfram ganga í berhögg við dóma svo sem fram til þessa og þar með koma til nýrra brota af hennar hálfu.“

Tekur dómari fram undir lok úrskurðar að reikna megi með að dómur falli í máli Eddu fyrstu eða aðra viku nýs árs og lýkur máli sínu með svofelldum úrskurði:

„Kröfu Eddu Bjarkar Arnardóttur [fæðingardagur og ár] um að verða látin laus er hafnað. Þinghaldi er slitið.“

Héraðsdómur Telemark í Skien hefur kveðið upp úrskurð sinn.
Héraðsdómur Telemark í Skien hefur kveðið upp úrskurð sinn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert