„Ég fæ klárlega einhvern dóm“

Edda Björk Arnardóttir kveður gæsluvarðhaldsdvöl í Noregi erfiða, þar þurfi …
Edda Björk Arnardóttir kveður gæsluvarðhaldsdvöl í Noregi erfiða, þar þurfi þó bara að hafa markmið og bera höfuðið hátt. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þetta er svo sem ekkert nýtt sem er að koma fram hérna, maður hefur heyrt þetta allt áður,“ segir Edda Björk Arnardóttir í samtali við mbl.is. Eins og fjallað hefur verið um síðustu daga er Edda ákærð fyrir Héraðsdómi Telemark í Skien í Noregi fyrir að nema syni sína þrjá á brott með ólögmætum hætti af heimili barnsföðurins sem fer með forsjá barnanna.

„Þetta er ekkert auðvelt en ég átti alveg von á að þetta yrði eitthvað,“ svarar Edda þegar blaðamaður spyr hana um þá upplifun að sitja í gæsluvarðhaldi í kvennafangelsinu í Skien sem er hámarksöryggisgæslufangelsi. Dvöl hennar þar kemur þó ekki til af því að Edda teljist til hættulegra stórglæpamanna í Noregi heldur er fangelsið skammt frá þeim héraðsdómstól sem málið heyrir undir.

Tekur dag fyrir dag

Tveir einkennisklæddir lögregluþjónar, karlmaður og kona, standa skammt frá en þeir hafa fylgt Eddu hvert fótmál í ranni héraðsdóms meðan á málflutningi stendur. Lögregluþjónarnir fylgja henni að ytri dyrum salernisins, að kaffivélinni og annar þeirra er inni í réttarsalnum allan tímann sem þinghald stendur, hinn frammi á gangi. Lögreglan veitti blaðamanni góðfúslegt leyfi til að fá Eddu „lánaða“ í stutt viðtal.

„Maður verður bara að taka dag fyrir dag,“ segir Edda af dvölinni í norsku hámarksöryggisgæslufangelsi, „ég er hérna út af strákunum og þannig held ég hausnum uppi, ég hugsa bara um þá,“ segir móðirin sem situr á bekk utan við þingsal níu þar sem þinghaldi var nýlokið er þetta spjall átti sér stað.

„Þungamiðjan í mínum málflutningi er bara réttindi barnanna, að það sé hlustað á börnin og þeirra réttur sé virtur. Þau hafa skoðun á sínu lífi, hvar þau eru í lífinu og sameiningu fjölskyldunnar eins og þau vilja hafa hana,“ segir móðirin.

Bara að hafa markmið

Aðspurð kveðst hún ekki vita almennilega hvort hún tali fyrir daufum eyrum norsks réttargæslukerfis í baráttu sinni, Edda hefur áður hlotið sex mánaða dóm í Noregi fyrir að brjóta gegn ákvörðun réttarins í forræðisdeilu þeirra barnsföður hennar.

„Ég fæ klárlega einhvern dóm, það er bara spurning hvað hann verður langur,“ segir Edda sem kveðst halda heim til Íslands með fyrsta flugi verði henni ekki haldið áfram í gæsluvarðhaldi fram á nýtt ár en úrskurður um það verður kveðinn upp á morgun, föstudag. Eins og greint var frá hér á vefnum í gær er meginregla norsks refsiréttar að sitji sakborningur í gæsluvarðhaldi við upphaf aðalmeðferðar sitji hann áfram í fjórar vikur að henni lokinni, eða þar til dómur fellur í máli gerist það fyrr.

„Þetta er mjög skrýtið,“ segir Edda af því hvernig dagarnir líða í gæsluvarðhaldinu. „Maður þarf bara að hafa markmið og muna af hverju maður er þarna. Það kemur dagur eftir þennan dag og þetta verður búið einhvern tímann, það er bara það eina sem maður getur gert,“ segir ákærða æðrulaus og ber presti íslensku kirkjunnar í Noregi, séra Ingu Harðardóttur, vel söguna en séra Inga heimsótti Eddu í fangelsið og ræddi við hana.

Fólk mætti á Hólmsheiði

Fangaverðina segir Edda frábæra og ekkert út á starfsfólk fangelsisins í Skien að setja. „Þetta er allt öðruvísi en á Íslandi, þar er opið fangelsi frá átta á morgnana til tíu á kvöldin, hér erum við læst inni mörgum sinnum yfir daginn og frá hálfníu á kvöldin erum við læstar inni þar til morguninn eftir þannig að þetta virkar allt öðruvísi,“ segir Edda af varðhaldsdvölinni.

Upplifirðu stuðning frá fólki í þessu máli?

„Ég fæ mjög góðan stuðning og það er það sem hefur algjörlega haldið mér gangandi í þessu máli, maðurinn minn, lögmaðurinn minn á Íslandi, systir mín, ættingjarnir, vinirnir, þau halda mér uppi, ég er með frábært fólk á bak við mig og ekki síður alla þessa ókunnugu sem eru að senda skilaboð. Fólk stóð á bak við mig, það mætti upp á Hólmsheiði [að fangelsinu kenndu við heiðina] og mér finnst þetta alveg geggjað. Stundum klökkna ég yfir því hvað ég fæ ótrúlega mikinn stuðning, þetta gerir svo mikið. Ég á frábæra vini og fjölskyldu og mann,“ svarar Edda.

Maður ársins?

Hún er spurð hvernig hún upplifi almenningsálit og umfjöllun um mál hennar.

„Það er langmest jákvætt, ég er nú ein af tíu efstu í manni ársins,“ segir Edda og hlær. Vissulega fer hún ekki með fleipur þar, Vísir og Reykjavík síðdegis hafa í árlegu vali sínu á manni ársins fengið inn á sitt borð nægilega margar tilnefningar til að ná sakborningnum, sem hér situr undir vökulu auga tveggja lögregluþjóna í Héraðsdómi Telemark, inn á lista efstu tíu manna og kvenna til að hljóta nafnbótina maður ársins 2023.

Lokaspurning snýr að samskiptum Eddu og barnsföður hennar.

„Þau eru engin, hann svarar mér aldrei, alveg sama hvað ég sendi honum, hvort sem það eru myndir af börnunum eða hvað,“ svarar ákærða, Edda Björk Arnardóttir, á ganginum fyrir utan dómsal níu í Héraðsdómi Telemark í Skien og heldur svo á brott í fylgd tveggja lögregluþjóna þar sem tónninn hefur greinilega verið sleginn, þremenningarnir hlæja og gera að gamni sínu svo undir tekur í ranni réttarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert