Mist Þ. Grönvold
Skúli Halldórsson
Kvikan sem spúst hefur upp á yfirborðið í eldgosinu við Sundhnúkagíga er þróaðri en sú kvika sem leiddi af sér þrjú gos í og við Fagradalsfjall á síðustu árum. Þó kemur hún úr sömu djúpu kvikugeymslunni, á um tíu til fimmtán kílómetra dýpi.
Þá er hún, eins og í fyrri tilfellum, ólík öllu öðru sem sést hefur áður á Reykjanesskaganum.
Þetta má ráða af mælingum sem jarðvísindamenn við Háskóla Íslands hafa gert á hrauni nýja gossins.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að kvikan sé því öll af sama stofni, þrátt fyrir að Fagradalsfjall annars vegar og Svartsengi hins vegar hafi til þessa verið talin sitt eldstöðvakerfið hvort.
„Ég er farinn að hallast að því að það gæti verið betra að líta á Reykjanesskagann sem eitt kerfi frekar en mörg ólík,“ segir Þorvaldur, sem áður hefur dregið í efa ríkjandi kenningar um skiptingu skagans í jafnvel sex mismunandi eldstöðvakerfi.
„Það getur verið að mismunandi hlutar af kerfinu taki við sér á mismunandi tímum. Það er þá bara hvernig landið liggur hverju sinni sem ákvarðar það.“
Hann telur að yfirstandandi eldgos hafi nú þegar náð hámarki sínu. Þó sé atburðarásin á Reykjanesskaga langt frá því að vera á enda og sagan muni að öllum líkindum endurtaka sig.