Um 20 jarðskjálftar hafa mælst yfir kvikuganginum á Reykjanesskaga frá miðnætti. Sá stærsti var 1,9 að stærð og átti upptök sín úti fyrir landi.
Skjálftavirknin hefur verið mjög lítil í nótt en áfram er órói, að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.
Áfram hefur sést kvikustrókavirkni við Sundhnúkagíga í nótt á vefmyndavélum en skoða þarf svæðið betur við birtingu.
„Líklega mallar þetta áfram í svipuðum dampi og í gær,” segir Einar. Litlar breytingar hafa verið á mæligögnum Veðurstofunnar frá því í gær, þegar dró úr krafti gossins.
Einar bætir við að gasmengun muni berast til suðausturs og út á haf í dag. Vindáttin virðist því vera mjög hagstæð.
Nýtt hættumatskort Veðurstofu Íslands tekur gildi klukkan 7. Íbúum og starfsmönnum fyrirtækja verður heimilt að dvelja og starfa í Grindavík frá kl. 7 til kl. 16 daglega.
Vísindamenn Veðurstofunnar funda síðan með almannavörnum klukkan 9.30.