Mörkin óljós: „Nú þarf að fylgjast vel með“

Svo virðist sem eldgosinu við Sundhnúkagíga sé lokið að sinni.
Svo virðist sem eldgosinu við Sundhnúkagíga sé lokið að sinni. mbl.is/Eyþór Árnason

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, segir að erfitt sé að segja til um hvenær dragi aftur til tíðinda á Reykjanesskaga.

Hann segir það ofar öllu að fylgjast vel með framvindu mála næstu daga.

Líkur þykja á að landris sé hafið á nýju, en mbl.is greindi fyrst frá því nú síðdegis að svo virðist sem kvika sé tekin að safnast aftur fyrir undir Svartsengi.

„Jarðskorpan hagar sér ekki það reglulega“

Kvikuhlaupið 10. nóvember annars vegar og eldgosið 18. desember hins vegar urðu hvort tveggja í kjölfar þess að landris við Svartsengi náði ákveðnu marki.

Aðspurður segir Freysteinn það mögulegt að horfa til þess marks landrissins, þegar vöngum er velt yfir framhaldinu. Þó séu ýmsir þættir sem þurfi að skoða.

„Það sem skiptir mestu máli á þessu stigi er að fylgjast vel með atburðarásinni, meta hvað þetta kvikuflæði er og leggjast í smá mat á því hvað þurfi hugsanlega til þess að koma nýju eldgosi af stað,“ segir Freysteinn. 

„Jarðskorpan hegðar sér ekki það reglulega. Við vitum ekki alveg hvar mörkin liggja til þess að koma af stað nýjum atburði. Nú þarf að fylgjast vel með.“

Freysteinn Sigmundsson.
Freysteinn Sigmundsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Viðbúið að atburðarásin yrði hröð

Freysteinn segir það hafa verið viðbúið að atburðarás gossins gæti orðið hröð eins og raun bar vitni þegar eldgosið við Sundhnúkagíga hófst á mánudag. 

„Það var búið að byggjast upp þrýstingur og við þekkjum það úr Kröflueldum til dæmis, þar sem voru mörg gangainnskot að fyrirvarinn gat verið álíka og þessi sem við sáum núna.“

Þá segir Freysteinn snöggan endi gossins ekki hafa komið sér sérstaklega á óvart. Hann hafi verið í takt við þá atburðarás sem átti sér stað í kvikuganginum 10. nóvember. Þá hafi mesta innflæðið einnig átt sér stað fyrsta sólarhringinn en síðan dró umtalsvert úr því. 

„Það er svo sem í takt við þetta eldgos. Það er greið rás sem opnast þegar það opnast í þennan kvikugeymi undir Svartsengi. Þá er rásin greið og kvikusöfnunarsvæðið tæmist, eða tappar af sér frekar fljótt því magni sem það getur losað í hvert sinn.“

Kvika þurfi að safnast upp áður en gjósa taki að nýju

Að sögn Freysteins tekur nú við tími athugana og eftirfylgni.

„Í mínum huga er kannski líklegasta atburðarásin að það þurfi að safnast eitthvað af kviku fyrir áður en gos tekur sig upp aftur.“

Hann segir kvikuna sem upp hafi komið við Sundhnúkagíga vera að mörgu leyti líka þeirri sem safnaðist í Fagradalsfjalli og að jafnframt sé ýmislegt sem bendi til þess að hún hafi setið lengur í jarðskorpunni áður en hún hafi komið upp. 

„Það segir okkur að það eru kannski tengsl á milli atburðanna í Fagradalsfjalli og hreyfinganna undir Svartsengi, en mörkin á milli kerfa eru mjög óviss á Reykjanesskaganum. Þetta segir okkur kannski ekki eitthvað um önnur kerfi á Reykjanesskaganum, heldur bendir þetta til þess að það sé samtenging milli svæða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert