Hermann Nökkvi Gunnarsson
Bandalag verkalýðsfélaga sem telja um 93% af heildarfjölda félagsmanna Alþýðusambands Íslands (ASÍ) mun á morgun funda óformlega með Samtökum atvinnulífsins (SA) í Karphúsinu.
Þetta staðfestir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is.
Eins og mbl.is greindi fyrst frá í síðustu viku þá flosnaði upp úr samningaviðræðum aðildarfélaga ASÍ þar sem stefnt var á að öll aðildarfélögin myndu vera með sameiginlega kröfugerð í viðræðum við SA.
Félögin sem mynda þetta nýja bandalag eru Starfsgreinasambandið, VR, LÍV, Efling og Samiðn. Fundurinn á morgun með SA verður í Karphúsinu með ríkissáttasemjara klukkan 9.30 og munu forsvarsmenn allra félaga mæta á fundinn.
Stefnir bandalagið að semja á grundvelli lífskjarasamningsins og verður krafan krónutöluhækkanir.
„Við ætlum að byggja á módeli lífskjarasamningsins, fara fram með kröfu um krónutöluhækkanir, krefjast aðkomu ríkisvaldsins og fara af stað í vegferð sem við trúum að muni gera það að verkum að hægt verði hratt og örugglega að ná niður vöxtum og verðbólgu,“ segir Sólveig.
Hún kveðst bjartsýn á komandi viðræður þó hún hefði viljað fá öll aðildarfélög saman í viðræðurnar.
„En ég er mjög ánægð með þessa niðurstöðu.“