Of snemmt að lýsa yfir goslokum

Fannar segist vonast til þess að gosinu sé lokið.
Fannar segist vonast til þess að gosinu sé lokið. Samsett mynd

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir of snemmt að lýsa yfir goslokum en fram kom í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands í morgun að engin gosvirkni sé sjáanleg og Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofunni, sagði í samtali við mbl.is undir hádegi að gosinu sé þannig séð lokið.

Ekki gott að ráða i stöðuna

„Það eru ánægjuleg tíðindi að það skuli ekki vera mikil hraunframleiðsla upp úr þessari gígaröð, en vísindamenn hafa tekið það fram og nú síðast á fundi í morgun að það sé ekki gott að ráða í stöðuna og þetta geti tekið sig upp á nýjan leik. Það er engan veginn þannig að það sé hægt að lýsa yfir goslokum fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Við vonumst til þess að gosinu sé lokið en það þýðir ekki hægt að fagna því strax,“ segir Fannar við mbl.is.

Fannar segir að það hafi sýnt sig frá fyrri gosum að þrátt fyrir að gosið virðist vera að lognast útaf þá geti það tekið sig upp á nýjan leik. Hann segir að frá fyrri reynslu og það sem var upplýst á fundinum með vísindamönnum að það sé best að fara öllu með gát.

Opnun Grindavíkurvegar frestaðist

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gaf út tilkynningu í gærkvöld um breytt aðgengi að Grindavíkurbæ eftir að Veðurstofa Íslands gaf út nýtt hættumatskort. Íbúum og starfsmönnum fyrirtækja er nú heimilt að dvelja og starfa í bænum frá klukkan 7-16 daglega.

„Ég heyrði í okkar manni á svæðinu um ellefu leytið og þar var lítil umferð. Það var frestun á opnum Grindavíkurvegar til hádegis. Það þurfti að merkja veginn og lækka hámarkshraða og Vegagerðin vildi gefa sér meiri tíma áður hægt væri að opna. Það var hins vegar hægt að komast í bæinn frá Nesvegi og Suðurstrandarvegi.“

Hann segir að ekki sé meiningin að hleypa ferðamönnum inn á svæðið enda sé stórhættulegt fyrir fólk að reyna að komast að gosstöðvunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka