Sagðist hafa náð myndum af síðustu slettunum

Björgunarsveitarmaður við gosstöðvarnar.
Björgunarsveitarmaður við gosstöðvarnar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Björgunarsveitarmenn sem voru á störfum við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga í nótt hittu tvo menn sem voru að koma frá Sundhnúkagígum.

„Við tókum þá upp á Grindavíkurveginum um fimmleytið í nótt en þeir voru í sitt hvoru lagi að koma frá gosstöðvunum,“ segir Emil Rúnar Kárason, björgunarsveitarmaður úr Flugbjörgunarsveitinni á Hellu, við mbl.is.

Emil segir að annar maðurinn sé útlendingur sem er búsettur hér á landi en hinn maðurinn er Íslendingur sem var að skoða gosið í annað sinn.

„Þeir voru báðir vel á sig komnir. Við keyrðum annan þeirra að bíl sínum en hinn ætlaði að reyna að húkka sér far til Reykjavíkur. Þeir voru báðir vel útbúnir og annar þeirra sagðist hafa náð góðum myndum af síðustu slettunum eins og hann orðaði það,“ segir Emil.

Emil var á Suðurstrandarveginum á leið til síns heima á Hellu þegar mbl.is spjallaði við hann og tjáði hann blaðamanni að hann hefði orðið var við talsverða umferð í áttina að Grindavík en íbúum Grindavíkur og starfsmönnum fyrirtækja er nú heimilt að dvelja og starfa í bænum frá klukkan 7 til 16 daglega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert