Segir gosið búið – Framhaldið ræðst á næstu dögum

Þorvaldur Þórðarson segir eldgosið í Sundhúkagígum vera búið.
Þorvaldur Þórðarson segir eldgosið í Sundhúkagígum vera búið. Samsett mynd

„Ég tel þetta gos vera búið,” segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, spurður út í tilkynningu Veðurstofunnar í morgun um að engin gosvirkni sé sjáanleg á gosstöðvunum og að svo virðist sem slokknað hafi í gígunum. 

Hann greindi frá því í viðtali við mbl.is í gær að gosinu gæti lokið um eða eftir helgi og kemur þessi niðurstaða honum því ekki á óvart.

„Virknin var alltaf stöðugt að detta niður hvað afl varðar og framleiðni. Það má segja að þessi atburðarás er líkari því sem maður kannski á að venjast í svona gosi,” segir Þorvaldur og nefnir mörg Kröflugosanna sem dæmi. Þau hafi verið öflug í byrjun en klárast síðan á nokkrum dögum.

Eldgosið hófst fyrr í vikunni nærri Sundhnúkagígaröðinni.
Eldgosið hófst fyrr í vikunni nærri Sundhnúkagígaröðinni. mbl.is/Árni Sæberg

Svipar mest til gossins í Litla-Hrúti

Hann segir gosinu við Sundhnúkagíga svipa mest til gossins í Litla-Hrúti af þeim eldgosum sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðustu ár. Það hafi verið mjög öflugt í byrjun en gengið hratt niður, þó að það hafi náð halda lífi í sér í nokkrar vikur í viðbót. Eldgosið við Sundhnúkagíga hafi aftur á móti verið það kraftmesta af þeim öllum en um leið það stysta. 

„Ástæðan fyrir því er að þessi kvika sem er að koma þarna upp hún kemur greinilega úr sama djúpa hólfinu og kvikan sem kom upp úr Fagradalsfjalli. En í staðinn fyrir að koma beint upp fór hún í kvikugeymslu á grynnra dýpi, fjórum til fimm kílómetrum undir Svartsengi," segir hann og nefnir að þar hafi kvikan kristallast til að gera sjálfa sig léttari. Þrýstingur hafi byggst upp og þegar hann var orðinn nægilega mikill hafi kvikan komið mjög hratt upp, eða á rétt rúmum klukkutíma.  

mbl.is/Kristinn Magnússon

Framleiðnin hafi verið mikil í byrjun, eða um 300 rúmmetrar á sekúndu, en dottið næstu klukkustundirnar á eftir niður í 10 rúmmetra á sekúndu. Vegna þrýstingsins í kvikuhólfinu hafi geymslan tæmst mjög hratt og því dregið fljótt úr afli gossins.

„Þetta sáum við allt saman, háa kvikustróka í byrjun, mikla framleiðni og mikið hraunrennsli,” segir hann.

Hraunrennslið hafi strax verið orðið lítið um miðjan dag á þriðjudaginn. „Þetta benti allt til þess að þetta væri þrýstifall sem myndi leiða til þess að gosið stoppaði.”

Gosið séð frá Reykjanesbrautinni.
Gosið séð frá Reykjanesbrautinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landris gefur vísbendingu um framhaldið

Spurður út í framhaldið segir Þorvaldur að atburðirnir á Reykjanesskaga virðast tengjast saman og koma þeir sennilega úr sömu djúpu kvikugeymslunni.

Veltir hann því fyrir sér hvort þetta sé síðasta eldgosið í þessari umbrotahrinu á svæðinu eða hvort fleiri skammtar séu væntanlegir. Það komi líkast til í ljós á næstu dögum og fari m.a. eftir því hvort landris við Svartsengi hefjist á nýjan leik. Ef kvika flæði þar aftur inn geti þetta endurtekið sig.

„Ef ekkert slíkt gerist er þetta kannski að lognast út af en við verðum að bíða og sjá,” segir Þorvaldur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert