Engin gosvirkni er sjáanleg á sprungunum norðan Grindavíkur og virðist hafa slokknað í gígunum. Þetta staðfesta vísindamenn Veðurstofunnar sem flugu yfir gosstöðvarnar á tíunda tímanum í dag. Þá er starfsmaður Eflu á Sýlingafelli.
Veðurstofan greinir frá þessu í tilkynningu á bandaríska miðlinum Facebook.
Þar segir einnig að glóð sé enn sjáanleg í hraunbreiðu.
„Virknin virðist hafa dottið niður seint í nótt eða mjög snemma í morgun. Þó er enn mögulegt að hraunrennsli sé í lokuðum rásum og því ótímabært að lýsa yfir goslokum,“ segir í færslunni.
Eldgosið hófst með krafti á mánudagskvöldið á Sundhnúkagígaröðinni austan við Sýlingafell á Reykjanesskaganum.
Mikið hefur dregið úr krafti gossins en í gær gaus úr tveimur gosopum suðaustur af Stóra-Skógfelli, en aðallega í gígnum austur af Sýlingafelli, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Nýtt hættumatskort Veðurstofu Íslands tók gildi klukkan 7 í morgun. Íbúum og starfsmönnum fyrirtækja verður heimilt að dvelja og starfa í Grindavík frá kl. 7 til kl. 16 daglega.
Vísindamenn Veðurstofunnar funda nú með almannavörnum, en fundurinn hófst klukkan 9.30.